Innlent

Solberg skoðaði dýrasta skip Íslendinga á Svalbarða

Atli Ísleifsson skrifar
Erna Solberg um borð í Polarsyssel.
Erna Solberg um borð í Polarsyssel. Mynd/Facebook-síða Ernu Solberg
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, skoðaði í gær Polarsyssel, skip Fáfnis Offshore, sem sinnir nú eftirlits- og björgunarstörfum við Svalbarða.

Steingrímur Erlingsson, framkvæmdastjóri Fáfnis, segir í samtali við Vísi að Solberg hafi verið með áhöfninni nær allan dag í gær, flogið með þyrlunni og litist sérlega vel á.

Solberg birti myndir úr heimsókn sinni á skipið á Facebook-síðu sinni í gær en hún kom til Svalbarða á sunnudag.

Polarsyssel er dýrasta skip sem Íslendingar hafa látið smíða, en það kostaði á sjöunda milljarð króna. Það leysti varðskipið Tý af í eftirlits- og björgunarstörfum við Svalbarða í september síðastliðinn, en Fáfnir hafði fengið Tý að leigu frá Landhelgisgæslunni snemma í vor á meðan verið var að ljúka smíði Polarsyssel hjá Havyard-skipasmíðastöðinni í Noregi.

Fáfnir Offshore gerði þjónustusamning við sýslumanninn á Svalbarða um að skipið sinni gæslustörfum sex mánuði í senn næstu tíu árin. Samningurinn gefur Fáfni sex milljarða króna í aðra hönd og greiðir þannig að mestu upp andvirði skipsins. Norðmenn greiða auk þess olíukostnað skipsins.

Mynd/Facebook-síða Ernu Solberg
Polarsyssel.Mynd/Havyard

Tengdar fréttir

Týr kominn frá Svalbarða

Þar hafði skipið verið í leiguverkefni frá byrjun maí, þar sem það var notað til eftirlits- og björgunarstarfa og almennrar löggæslu- og þjónustustarfa fyrir sýslumanninn á Svalbarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×