Fjarðalax hefur leitt hraða uppbyggingu fiskeldis á sunnanverðum Vestfjörðum en aðeins eru fimm ár frá því fyrirtækið tók til starfa. Höskuldur Steinarsson, framleiðslustjóri fyrirtækisins, segir að þeir hafi verið þrír sem byrjuðu en nú séu starfsmennirnir 57 talsins.
Fyrstu laxaseiðin voru sett í sjókvíar í Tálknafirði en Fjarðalax er jafnframt með kvíar í Arnarfirði og Patreksfirði og er einn fjarðanna jafnan hvíldur. Fyrir þremur árum hófst vinnsla á laxi á Patreksfirði en þar er fjölmennasta starfsstöðin. Þaðan er laxinn sendur ferskur á markaði.

„Þannig að við erum að bæta við fólki með þekkingu og reynslu,” segir Höskuldur og býst við að tíu starfsmenn til viðbótar bætist við á næstu vikum.
Framleiðslan í ár stefnir í yfir tvöþúsund tonn, en í fyrra var selt fyrir tólfhundruð milljónir króna. Á þessu ári stefna gjaldeyristekjur Fjarðalax í tvo milljarða króna, sem er ekki svo lítil viðbót í þjóðarbúið frá byggðunum á sunnanverðum Vestfjörðum.
En hvernig gengur að fá fólk til að starfa?
„Það er svolítið tak að fá Íslendinga til að flytja vestur á firði, ég skal viðurkenna það. En þetta er að breytast. Við finnum það. Það er mikill áhugi að koma núna. Það er ungt fólk, fólk með menntun og reynslu, - og fjölskyldur, - sem hefur beinlínis áhuga á að koma,” svarar Höskuldur.

„Það er húsnæðisvandamál að myndast á sunnanverðum Vestfjörðum í kringum þessa starfsemi. Það vantar íbúðarhúsnæði. Þannig að það er næsta stóra verkefni, að bæta í hvað varðar innviði samfélagsins.”