Tónlist

Bílaunnendur í Bandaríkjunum heillast af Kaleo

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Hljómsveitin Kaleo hrífur bílaunnendur í Bandaríkjunum en liðsmenn sveitarinnar eru ekkert sérstaklega miklir bílaunnendur.
Hljómsveitin Kaleo hrífur bílaunnendur í Bandaríkjunum en liðsmenn sveitarinnar eru ekkert sérstaklega miklir bílaunnendur. Mynd/Raggi Óla
„Við vissum ekkert af þessu og rákumst bara á þetta á netinu,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar Kaleo, en sveitin og lag hennar Automoblie eru lofsömuð á virtri bandarískri bílavefsíðunni StreetLegaltv.

Um er að ræða vefsíðu þar sem allt um bíla er að finna og bílaunnendur gera sig heimakæra. Síðan birti frétt um sveitina og lagið Automobile fyrir skömmu undir yfirskriftinni að íslensk hljómsveit sýndi og sannaði hversu almenn ást væri á bílum út um allan heim. „Þetta er auðvitað frekar amerískt lag en það er samið í sólinni á Spáni,“ segir Jökull.

„Ég er ekki mikill bílakall og á ekki einu sinni bíl sjálfur,“ segir Jökull spurður út í bílaáhugann. Kaleo fjárfesti þó ekki alls fyrir löngu í bíl. „Við köllum hann Lárus, hann er að detta í sundur en er samt rúmgóður,“ segir Jökull.

Sveitin er þó ekki á leiðinni til Bandaríkjanna þrátt fyrir áhugann frá bílaunnendunum. „Það er ekki planað eins og er að fara til Bandaríkjanna en við förum til Danmerkur í maí og svo förum við líklega til Grænlands í næsta mánuði.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.