Þeir segja að fáar stéttir háskólamenntaðra manna séu með jafn léleg laun og þeir. Grunnlaun kandídats að loknu sex ára námi eru nú 343 þúsund krónur á mánuði.
„Það eru margir sem halda að almennir læknar séu hálaunafólk en svo er ekki. Þeir almennu læknar sem starfa á vöktum fá vaktaálag og það hækkar launin talsvert en það eru ekkert allir sem vilja vinna á vöktum eða geta unnið á vöktum. Þess vegna förum við fram á verulega hækkun grunnlauna,“ segir Ragnhildur Hauksdóttir, formaður Félags læknanema.
Hún segir að aðstæður sem aðstoðarlæknar búi við séu ekki sérlega góðar. „Vinnuálag og sú ábyrgð sem þeir bera er mikil,“ segir Ragnhildur.
„Aðstæðurnar eru ekkert sérlega góðar eins og á Landspítalanum. Það er þó búið að bæta margt á einu ári eins og á lyflækningasviðinu þar sem ástandið var afleitt. Það er þó margt sem má bæta á spítalanum en það verður ekki ekki gert á einni nóttu,“ segir hún og bætir við að það séu launin fyrst og fremst sem læknakandídatar séu óánægðir með.

Arna Reynisdóttir er formaður Félags læknanema í Ungverjalandi. Hún segir að þótt flesta læknanema dreymi um að koma heim sjái fæstir það sem raunhæfan kost.
„Margir fara heim til Íslands og taka kandídatsnámið þar, í því felst gífurleg reynsla. En fólk hefur ekki hug á að starfa á Íslandi til lengri tíma,“ segir Arna.

„Sú staðreynd að læknastéttin á Íslandi er lægst launaða háskólastéttin er alls ekki uppörvandi. Sorglegast þykir okkur þó að bág kjör og niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er vandamál sem hefur viðgengist í fjöldamörg ár og ekkert virðist ætla að breytast. Okkur er ekki gefin nein von um að ástandið muni fara batnandi,“ segir Arna.
Sérnámslæknar erlendis eru sömuleiðis afar óánægðir með kjör sín. Um eitt hundrað þeirra hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að snúa aftur til Íslands úr sérnámi eða séu að íhuga að skipta um starfsvettvang ef ekki verður gerð meiriháttar leiðrétting á kjörum strax. Í yfirlýsingu til heilbrigðisráðherra minna þeir á að uppsagnarfrestur hjá almennum læknum sé einn mánuður og því sé mikilvægt að bregðast hratt við.