Erlent

„Sendið hann í fangelsi“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
MYND/AFP
Allt er á suðupunkti í Venesúela þar sem mikil mótmæli og miklar óeirðir hafa geisað upp á síðkastið. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Leopoldo Lopez, er nú í haldi lögreglu.

Handtökuskipan var gefin út á hendur Lopez fyrr í þessari viku en gaf Lopez sig ekki fram fyrr en í fyrradag. Hann gaf sig fram fyrir framan þúsundi mótmælanda og sagðist hann vonast til þess að í kjölfar handtöku hans muni stjórnvöld Venezúela opna augun og taka eftir allri þeirri spillingu og efnahagslegu hörmungum sem sósíalíska reglan hefur leitt af sér síðastliðin fimmtán ár.

Hann er ákærður fyrir íkveikju, glæpsamlega hegðun og fyrir að hafa hvatt mótmælendur til ofbeldis, en hann var upphafsmaður mótmælagöngunnar sem fram fór fyrr í þessari viku þar sem þrír létu lífið. Lopez, sem er 42 ára gamall, gæti átt yfir höfði sér að minnsta kosti tíu ára fangelsisvist.

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, gaf það í skyn í ræðu sinni í dag, sem send var út á landsvísu, að Lopez muni áfram sitja í gæsluvarðhaldi þar til ákæra verður gefin út.

„Ég sagði, sendið hann í fangelsi. Það er það sem mun gerast fyrir alla fasista,“ sagði Maduro í ræðu sinni sem stóð yfir í rúmar tvær klukkustundir.

Maduro hefur nú gert þrjá sendiráðsfulltrúa brottræka en sakar hann þá um að hafa átt fundi með stjórnarandstæðingum.

Fimm manns hafa látið lífið og tugir særst í átökunum. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hvatti stjórnvöld í landinu til að sleppa mótmælendum sem hafa verið fangelsaðir í átökunum síðastliðna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×