Innlent

Ætlar að verja trúarstarf í skólanum sínum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Inga er skólastjóri í Valsárskóla.
Inga er skólastjóri í Valsárskóla.
Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri Valsárskóla, segist ekki ætla að bregða frá hefðum um trúarstarf í kringum jólahátíðina. Hún segir að litaðar séu allskyns Jesúmyndir á jólum og páskum og að farið sé með nemendur í kirkju.

„Ég bíð alltaf eftir símtalinu þar sem þess er krafist að allar þessar áralöngu hefðir verði lagðar niður. Það er slagur sem ég ætla að vanda mig að vinna,“ segir hún á Facebook-síðu sinni. Mikil umræða sprettur upp árlega í kringum jólin en ekki eru allir sammála um hvort trúarstarf, svosem kirkjuheimsóknir, eigi að vera hluti af skólastarfi.

Í umræðum við færsluna segir hún að allir nemendur skólans séu í þjóðkirkjunni og að hún hafi ekki áhyggjur ef barn komi í skólann sem er annarrar trúar.

Þeir foreldrar sem Inga Sigrún hefur rætt við í dag hafa lýst ánægju sinni með umræðuna, sem þó sé heldur óvægin að mati skólastjórans. „Bara jákvæð viðbrögð. Fólk er ánægt með þetta,“ segir hún í samtali við Vísi. „Það hefur engin neitt við þetta að athuga.“

Samkvæmt Facebook-færslunni er trúarstarf hluti af skólastarfinu allt árið en hún segir að prestur komi í skólann tvisvar í mánuði þar sem hann spjallar við kennarana á kennarastofunni og krakkana á ganginum. Í þessum heimsóknum er presturinn að undirbúa trúarstarf sem hefjist að loknum kennsludeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×