Innlent

Búist við norðaustan stormi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Samkvæmt ábendingu frá veðurfræðingi má bera ráð fyrir norðaustan stormi allt að 18-23 metrum.
Samkvæmt ábendingu frá veðurfræðingi má bera ráð fyrir norðaustan stormi allt að 18-23 metrum. VÍSIR/HAG
Samkvæmt ábendingu frá veðurfræðingi má bera ráð fyrir norðaustan stormi allt að 18-23 metrum á sekúndu í dag.

Á Norðurlandi og eins á Vestfjörðum verður snjókoma eða éljagangur til kvölds. Skil nýrrar lægðar stefna á landið austanvert og spáð er stórhríðarveðri, víða með afar takmörkuðu skyggni. Fyrst á Austurlandi frá því seint í nótt og eins á Norðurlandi og á Ströndum og norðanverðum Vestfjörðum frá því í fyrramálið.

Vegir eru mikið til auðir á Suður- og Suðvesturlandi en þó eru hálkublettir á Mosfellsheiði og Bláfjallavegi.

Hálka eða hálkublettir eru nokkuð víða á Vesturlandi, einkum á fjallvegum. Hálka og skafrenningur er á Svínadal.

Á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum fjallvegum. Snjóþekja og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Hálka er víða á Norðvesturlandi og skafrenningur á Vatnsskarði. Þæfingur og skafrenningur er á Þverárfjalli og snjóþekja og skafrenningur á Siglufjarðarvegi.

Á Norðausturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum og víða éljagangur.

Skafrenningur er í kringum Mývatn og á fjallvegum þar fyrir austan.

Snjóþekja eða hálka er á vegum á Austurlandi og snjókoma eða éljagangur nokkuð víða. Snjóþekja og snjókoma er frá Fáskrúðsfirði og að Djúpavogi en greiðfært þaðan og áfram með suðurströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×