Lífið

Barðist um réttinn að Svani Guðbergs

Ugla Egilsdóttir skrifar
Ása Helga Hjörleifsdóttir lærði kvikmyndagerð við Columbia-Háskólann í New York.
Ása Helga Hjörleifsdóttir lærði kvikmyndagerð við Columbia-Háskólann í New York. Fréttablaðið/Pjetur
Mynd sem Ása Helga Hjörleifsdóttir hyggst gera eftir bókinni Svaninum eftir Guðberg Bergsson var valin á Berlinale Co-production-markaðinn.

„Vonandi leiðir þetta til þess að við getum farið í tökur fljótlega,“ segir Ása Helga.

Vintage Pictures framleiðir myndina. Handritið er tilbúið, en markaðurinn gerir Ásu kleift að kynna sig fyrir hugsanlegum meðframleiðendum að myndinni.

„Berlinale Co-production er einn stærsti kvikmyndamarkaður í Vesturheimi. Það væri óskandi að við nældum okkur í útlenska meðframleiðendur á þessum markaði.“

Ásu hefur lengi langað að gera kvikmynd eftir þessari bók.

„Það gerðist eitthvað þegar ég las þessa bók sem varð til þess að mig langaði að gera bíómyndir. Þessa baksögu gat ég notað í sumar þegar ég var að berjast fyrir réttinum til þess að gera myndina.“

Ása Helga þurfti að keppa um réttinn að bókinni við aðra kvikmyndagerðarmenn.

„Núna síðast sóttust erlendir kvikmyndagerðarmenn eftir réttinum, en ég naut trausts Guðbergs fyrir þessu verkefni. Hann hefur verið mér hliðhollur frá upphafi. Ég hef unnið að handritinu frá því ég var að læra kvikmyndagerð við Columbia-háskólann.“

Ása Helga segir að líklega hafi Guðbergur tengt sig við eitthvað í handriti hennar.

„Það er ekki síst existensíalisminn í bókinni sem heillaði mig og ég reyni að halda honum í handritinu. Annar þráður í bókinni hans sem ég reyni að miðla í handritinu eru ákveðnar hliðstæður í náttúru mannsins og í náttúrunni umhverfis manninn.“

Þótt Ása Helga elski bókina segir hún að bíómyndin verði allt annað listaverk.

„Ég ætla mér að nýta möguleika kvikmyndaformsins. Í sögunni er mikið af innri einræðum hjá aðalpersónunni sem er níu ára barn. Það er krefjandi að breyta því í myndmál, en ég hef ýmsar hugmyndir.“

Alls eru 39 verkefni alls staðar að úr heiminum valin á Berlinale Co-production-markaðinn.

Þar af eru tíu myndir sem eru fyrstu myndir leikstjóra í fullri lengd. Svanurinn verður fyrsta kvikmynd Ásu í fullri lengd, en hún hefur áður gert stuttmyndina Ástarsögu.

„Af þessum tíu eru þrjár valdar sem þykja sérstaklega efnilegar. Ég fékk að vita það í gær að Svanurinn er ein af þessum þremur. Ástarsaga hefur hjálpað mér við að sanna mig sem leikstjóri, en hún hefur farið víða og fengið mörg verðlaun, og hún hefur vafalaust hjálpað óbeint til við að koma Svaninum inn á hátíðina. Hún gefur einhverjar hugmyndir um það hvernig mynd eftir mig í fullri lengd verður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.