Innlent

Hálka í höfuðborginni og víðar

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tvö lítilsháttar umferðaróhöpp hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.
Tvö lítilsháttar umferðaróhöpp hafa orðið á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. mynd/arnþór
Færð í efri byggðum höfuðborgarsvæðisins er að þyngjast og töluverð hálka er á götum. Að sögn lögreglunnar hafa tvö lítilsháttar umferðaróhöpp orðið í kvöld, aftanákeyrslur á Vesturlandsvegi og í Mosfellsbæ.

Nú er vindur á vestanverðu landinu að snúast í vestanátt og með henni kólnar vestan til en einnig kólnar austan og suðaustanlands með kvöldinu. Slydda á láglendi víðast hvar en snjókoma á fjallvegum. Úrkomulítið á Norðurlandi og Vestfjörðum en kólnar og hálkumyndun líkleg á blautum vegum.

Varað er við hálku og krapa á Suðurlandsvegi í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli. Þá er snjóþekja og snjókoma á Hellisheiði, Sandskeiði og í Þrengslum. Snjóþekja er einnig á láglendi í nágrenni við Selfosss og við ströndina.

Vegir á Vesturlandi eru víða auðir eða með hálkublettum. Þó er hálka á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði en einnig á stöku útvegum. Á Vestfjörðum er hins vegar hálka á velflestum vegum.

Á Norðvesturlandi eru vegir mikið til auðir í Húnavatnssýslum en í Skagafirði er víða hálka. Hálka og skafrenningur er á Vatnsskarði en hálkublettir á Þverárfjalli.

Norðaustantil er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Hálka og skafrenningur er þó á Mývatnsöræfum.

Á Austurlandi er ófært um Fjarðarheiði, þungfært og skafrenningur er á Hárekstaðaleið en þæfingur er á Vopnafjarðarheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Fagradal og Oddskarði. Hálkublettir eru svo með suðurstöndinni frá Breiðdalsvík að Höfn en greiðfært eftir það suðurúr.

Vegna vinnu við endurnýjun á rafkerfum í Múlagöngum má búast við umferðartöfum þar yfir nóttina, frá klukkan 21 til 6 að morgni. Vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar og virða hraðatakmarkanir meðan á framkvæmdum stendur.

Vart hefur orðið við vetrarblæðingar á milli Staðarskála og Hvammstanga en einnig á Ólafsfjarðarvegi og Svalbarðsströnd. Vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×