Lífið

Pollarnir fá aðstoð frá Ham og Skálmöld

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pollapönk fær aðstoð frá Bibba úr Skálmöld og Óttari Proppé úr Ham í Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardagskvöldið.
Pollapönk fær aðstoð frá Bibba úr Skálmöld og Óttari Proppé úr Ham í Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardagskvöldið. fréttablaðið/stefán
Bibbi úr Skálmöld og Óttar Proppé úr Ham ætla að syngja bakraddir með okkur á laugardagskvöldið,“ segir rauði pollinn, Haraldur Freyr Gíslason, söngvari og gítarleikari í Pollapönk. Það er því ljóst að hljómsveitirnar Pollapönk, Botnleðja, Dr. Spock, Ham og Skálmöld munu í fyrsta skipti í sögunni stíga saman á svið í Háskólabíó á laugardagskvöldið, þegar úrslitin í Söngvakeppni Sjónvarpsins fara fram.

Pollarnir voru staðráðnir í að bæta atriðið sitt ef þeir kæmust í úrslit. „Það var alltaf planið að byggja ofan á atriðið ef við kæmumst áfram, nú erum við líka að nálgast regnbogafánann í litum,“ segir Haraldur.

Alþingismaðurinn og gullbarkinn Óttar Proppé verður fjólublái pollinn og Bibbi (Snæbjörn Ragnarsson), verður appelsínuguli pollinn. „Appelsínuguli pollinn er svokallaður skyndihjálparpolli og mun hjálpa fólki í vanda. Fjólublái pollinn eða Alþingispollinn ætlar að gera Ísland að fordómalausri þjóð,“ útskýrir Haraldur.

Pollapönk hefur æft af kappi frá því að sveitin komst áfram. „Við höfum æft daglega frá því við komumst áfram og tökum þetta gríðarlega alvarlega. Það skiptir okkur mjög miklu máli að gera þetta vel,“ segir Haraldur og bætir við að þeir geti vart beðið eftir því að stíga á svið.

Óttar og Bibbi eru miklir rokkarar en líklega síst þekktir fyrir bakraddasöng. „Nú erum við með raddir í öllum regnbogans litum þannig að þetta verður litríkt og skemmtilegt.“

Það er þó enn óákveðið hvort Bibbi og Óttar verða með hljóðfæri á sér, en þeir munu pottþétt munda míkrafóninn af mikilli fagmennsku. „Þó að enginn af okkur hafi unnið söngvakeppni framhaldsskólanna þá lofa ég fögrum söng,“ segir Haraldur léttur í lundu.

Þá hefur enn ekki verið ákveðið hvort bakraddasöngvararnir verði fullgildir meðlimir Pollapönks eftir Eurovision-flutninginn. „Þeir verða með okkur á laugardaginn en við sjáum svo til með framhaldið, við þurfum að sjá hvort þeir hafa pollaandann í sér. Þeir eru samt fordómalausir, ég finn það strax.“

Pollapönk flytur lagið Enga fordóma í Háskólabíói á laugardagskvöldið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×