Lífið

Elton John og Donna Summer standa upp úr

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarmaðurinn Þórir Baldursson verður heiðraður á tónleikum í Hörpu í kvöld.
Tónlistarmaðurinn Þórir Baldursson verður heiðraður á tónleikum í Hörpu í kvöld. vísir/valli
Einn virtasti tónlistarmaður Íslandssögunnar, Þórir Baldursson, fagnar í ár sjötíu ára afmælinu sínu en ferill hans er ótrúlega yfirgripsmikill. Hann lauk prófi úr kennaradeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1965 og hefur starfað sem atvinnutónlistarmaður frá 14 ára aldri. Hann hefur samið og útsett aragrúa laga fyrir innlenda og erlenda tónlistarmenn.

Á þínum langa og farsæla ferli, hvað stendur upp úr, þegar þú hugsar til baka? „Það er margt sem mér finnst standa upp úr. Ég verð þó að segja Savanna tríóið og það sem ég gerði með Donnu Summer, Grace Jones og auðvitað Elton John,“ segir Þórir Baldursson. Hann vann fjórar plötur með diskódívunni Donnu Summer, tvær plötur með jamaísku söngkonunni Grace Jones og eina plötu með Sir Elton John.

Nokkrar þekktar plötur:

Savanna Tríóið – Savanna Tríoið 1963

Donna Summer – Love to Love You Baby 1975

Donna Summer – Love Triology – 1976

Donna Summer- Four Seasons of Love 1976

Donna Summer - I Remember Yesterday 1977

Grace Jones – Fame 1978

Grace Jones – Muse 1979

Elton John – Victim of Love 1979


Í tilefni afmælis Þóris verður hann heiðraður á tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur í kvöld. „Þetta verða nokkuð hefðbundnir stórsveitartónleikar en við förum yfir ferilinn minn og spilum meðal annars fyrsta lagið sem ég samdi,“ segir Þórir. Fyrsta lagið sem Þórir samdi heitir Sunnubraut seytján, en það var einmitt samið á Sunnubraut 17 í Keflavík, þar sem Þórir ólst upp.

Hann flutti til Svíþjóðar árið 1970 og til München í Þýskalandi árið 1972 og starfaði þar sem tónlistarmaður. Þá flutti hann seinna meir til Bandaríkjanna en dvaldi þó lengst af í München. „Ég bjó erlendis frá 1970 til 1990 en kom þó heim þarna í millitíðinni í þrjú ár.“

Þórir segir tónlistarlífið á Íslandi hafa breyst töluvert en þó til hins betra. „Það er svo mikið af ungu, hæfileikaríku fólki, sem er komið úr tónlistarskólunum. Það er mikil gróska hér á landi,“ bætir Þórir við. Hann bætir við að hann telji tónlistarmenntunina mjög mikilvæga. „Fólk með hæfileika þarf að útvíkka hæfileikana með því að fara í nám.“

Fyrir utan spilamennskuna, vinnur Þórir við að kenna við Tónlistarskóla FÍH og segist fá mikið út úr því að kenna.

Þórir hefur samið eða útsett mörg af fallegustu lögum Íslandssögunnar, áttu þér eitthvert uppáhaldslag? „Ég get ekki gert upp á milli laganna, ég er yfirleitt bara mjög ánægður með þessi íslensku lög sem hafa náð langt,“ segir Þórir.

Tónleikar Stórsveitar Reykjavíkur fara fram í Silfurbergi í Hörpu í kvöld. Þórir mun stjórna hljómsveitinni, spila á Hammond-orgel og útsetja alla efnisskrána, en þar verður komið víða við á löngum og viðburðaríkum ferli hans. Söngvararnir Björgvin Halldórsson, Bubbi Morthens, Ragnar Bjarnason og Sunna Margrét Þórisdóttir koma einnig fram á tónleikunum sem hefjast klukkan 20.30.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.