Innlent

Rafmagnsleysi í gær var ekki vegna óveðursins

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Rafmagnslaust er í Bláfjöllum vegna veðursins.
Rafmagnslaust er í Bláfjöllum vegna veðursins. Vísir / Vilhelm
Rafmagn fór af í Háaleitishverfi í Reykjavík í dag á sama tíma og óveður skall á. Rafmagnsleysið var þó ekki vegna óveðursins að sögn upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar heldur var um bilun að ræða í háspennustöng sem hefði getað gerst hvenær sem er.

Aukinn viðbúnaður var hinsvegar hjá Orkuveitunni vegna veðursins og var því hægt að bregðast við rafmagnsleysinu óvenju snöggt. „Þetta er strengur sem var kominn á tíma sem bilaði og valdi sér þennan dag,“ segir hann. „Það var þessi aukni viðbúnaður sem að skilaði sér í því að það var gekk mjög hratt og vel fyrir sig að koma rafmagninu á aftur.“

Óveðrið orsakaði hinsvegar rafmagnsleysi á skíðasvæðinu í Bláfjöllum en línum sló saman í vindinum. Unnið er að viðgerð á þeim í dag en skipta þarf út hluta línunnar. Þá sló einnig út í dælustöð hitaveitu við Stekkjarbakka í Breiðholti. Olli það því að þrýstingur á heita vatninu í Efra-Breiðholti féll og sumstaðar varð hitavatnslaust. Um klukkutíma tók að finna og laga þá bilun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×