Hann gat ekki komið á viðhafnarfrumsýninguna í Háskólabíói á miðvikudag þar sem hann var að leika í þáttunum Stalker með Dylan McDermott í aðalhlutverki.
„Þessir þættir minna svolítið á NCIS eða CSI. Þeir gerast í deild innan lögreglunnar sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk sem hefur verið setið um. Í hverjum þætti er einn eltihrellir og ég leik einn slíkan.“
Það var mikill heiður fyrir Darra að leika í Borgríki 2 og vinna með íslensku leikurunum. „Ég er búinn að fylgjast með þeim frá því ég var yngri, Ingvar E, Siggi Sigurjóns og þessir snillingar. Ég horfði endalaust á kvikmyndir sem barn, á Djöflaeyjuna, Engla alheimsins og allar þær myndir. Einhverja af þeim sá ég líka í leikhúsi og varð gjörsamlega heillaður. Það var því mikill heiður að fá að leika á móti þessum meisturum,“ segir hann.

Í fyrra fékk Darri svo óvænt hlutverk í þáttunum um Dexter. „Ég átti ekki von á því, það gerðist svo hratt og var engin formleg prufa þannig, ég fór bara og las senu og spjallaði við þá. Svo hringdi umboðsmaðurinn minn í mig tveim dögum síðar og þá var búið að bóka mig í sjö þætti,“ segir Darri, en hann var staddur á sjúkrahúsi að skoða fæðingardeildina fyrir komu sonar síns þegar hann fékk fréttirnar. „Ég þurfti alveg að halda í mér spenningnum, þetta var ekki alveg staðurinn til þess að fagna og vera með læti.“
En Baltasar hefur ekkert haft samband við hann og boðið honum hlutverk í víkingamyndinni?
„Ég þekki hann nú ekki mikið, en mig hefur oft langað að vinna með honum. Maður þarf auðvitað að vera réttur maður í verkefnið og ætli ég sé ekki of lítill fyrir hana,“ segir Darri. „Ég myndi aldrei segja nei samt, ég gæti allavega safnað skeggi.“