Innlent

Mikill hiti á Alþingi um stjórn RÚV ohf

Jakob Bjarnar skrifar
Pétur Gunnarsson, fyrrverandi fulltrúi Pírata í stjórn RÚV ohf.
Pétur Gunnarsson, fyrrverandi fulltrúi Pírata í stjórn RÚV ohf. vísir/Anton Brink
Nú rétt í þessu fór fram atkvæðagreiðsla á Alþingi um hvernig skipað skyldi í stjórn RÚV ohf. Niðurstaðan varð sú að stjórnarmeirihlutinn hafði betur og kemur fulltrúi Framsóknarflokksins inn í stjórn Ríkisútvarpsins í stað fulltrúa Pírata. Um þetta sama var kosið í sumar og þá féllu atkvæði þannig að einn stjórnarliði kaus með minnihlutanum. En, það gerðist ekki nú. Atkvæði féllu: A = 38 og B = 25.

Mikill hiti var á Alþingi þegar umræður fóru fram um kosningu níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins. Fyrir lágu tveir listar sem um var kosið; listi ríkisstjórnarflokkanna, A-listi, sem gerði ráð fyrir fimm stjórnarmönnum stjórnarflokkanna og þar með hlutfallinu 6/3 og listi B, sem gerði ráð fyrir hlutfallinu 5/4, að þá minnihlutinn ætti fjóra fulltrúa í stjórn RÚV ohf. Listi A gerði ráð fyrir því að fulltrúi Pírata, Pétur Gunnarsson, færi úr stjórn RÚV en fulltrúi Framsóknarmanna, Guðlaugur G. Sverrisson, kæmi inn í hans stað.

Fjölmargir þingmenn minnihlutans tóku þátt í umræðunni auk forsætisráðherra og menntamálaráðherra, en Illugi Gunnarsson taldi ekki óeðlilegt að stjórn RÚV ohf endurspeglaði hlutfall þingmanna á Alþingi. Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, benti menntamálaráðherra á að úrslit úr síðustu alþingiskosningum voru þau að 51,1 prósent atkvæða féllu í skaut núverandi stjórnarflokka. Með því hlutfalli að stjórnarflokkarnir ættu 6 fulltrúa þá þýddi það 66,6 prósent. Hann lagði áherslu á mikilvægi fjölbreyttra sjónarmiða í stjórninni.

A-aðalmenn:Ingvi Hrafn Óskarsson, Magnús Stefánsson, Guðrún Nordal, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Ásthildur Sturludóttir og Guðlaugur G. Sverrisson.

B-aðalmenn:Margrét Frímannsdóttir, Björg Eva Erlends, Friðrik Rafnsson og Pétur Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×