Lífið

Aðfinnsluhrópin fljúga fram hjá

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Því betri sem leikmenn eru, því skemmtilegra er dómarastarfið,“ segja þær Rúna, Bríet og Jovana. Fréttablaðið/Ernir
Þær hafa komið sér fyrir í einu skoti Slippbarsins við höfnina þegar ég mæti, Bríet Bragadóttir, Jovana Cosic og Rúna Kristín Stefánsdóttir. Ég gleymi að bjóða upp á hressingu (átta mig ekki á því fyrr en ég byrja að skrifa viðtalið) en fer strax að fikta í nýja upptökutækinu. Ekkert má fram hjá mér fara sem þær segja, því dómgæsla í fótbolta er mér framandi – en þeirra sérgrein.

Þær eru allar með landsdómararéttindi og dæma í efstu deildum. Rúna er auk þess komin á alþjóðalista og allur heimurinn er undir.

Lenda ekki í samstuði

Allar byrjuðu þær ungar að spila fótbolta, Bríet með Sindra á Höfn þegar hún var fimm ára, síðar með KR og Þrótti í Reykjavík, Rúna lék með ÍR og Jovana með tveimur liðum í Serbíu áður en hún flutti hingað árið 2005 og gekk til liðs við HK/Víking.

Hvað kom til að þær sneru sér að dómarastörfum?

Rúna: „Ég var 16 ára að þjálfa 7. og 8. flokk karla og kvenna hjá ÍR og öðlast þjálfararéttindi hjá ÍSÍ. Mér fannst við hæfi að ég kynni reglurnar sem dæmt er eftir og ákvað að fara á unglingadómaranámskeið. Svo hætti ég að þjálfa í tvö, þrjú ár en þegar ég ætlaði að byrja aftur fannst mér ég þurfa að kunna að meira um lögin svo ég tók héraðsdómarann 2009 hjá KSÍ. Í kjölfarið var mér boðið að dæma og síðan hef ég verið í því. En ég hætti að spila fótbolta út af meiðslum.“

Verður ekki dómarinn að hlaupa mest af öllum?

Rúna: „Jú, en hann lendir ekki í samstuði eins og í leikjum og það munar öllu.“



Bríet: „Þegar ég var að æfa með þriðja flokki hjá KR var mælt með að allir færu á unglingadómaranámskeið og ég gerði það. Stuttu seinna meiddist ég illa á ökkla og var heilt ár frá. Á þeim tíma var boðið upp á héraðsdómaranámskeið fyrir konur. Ég skellti mér á það og ætlaði síðan að byrja aftur í fótbolta en gekk ekki nógu vel. Þá var hringt í mig frá KSÍ og ég beðin að dæma.“

Jovana: „Ég fór á dómaranámskeið í Serbíu 2003 með bestu vinkonu minni, byrjaði strax að dæma og hélt því áfram af og til meðan ég spilaði hér og hef verið í landsdómarahópnum síðan 2010.“

Rúna: „Svo er hægt að fá alþjóðleg réttindi líka, með tilnefningu frá KSÍ. Ég er eina konan í augnablikinu hér á landi með þau, sem aðstoðardómari. Er búin að vera á FIFA-listanum síðan 2011 og hef farið þrjár til fjórar ferðir út á ári. Það er mjög gaman.“

Þær eru sammála um að dómarastarfið sé skemmtilegt. „Annars værum við ekki í þessu,“ segir Bríet ákveðin.

En er ekki alltaf verið að skrattast í dómurunum?

„Eftir því sem reynslan eykst er auðveldara að brynja sig gegn því,“ segir Bríet. „Já, maður hættir að hlusta,“ tekur Rúna undir. „Hrópin fara ekki einu sinni inn um annað og út um hitt heldur fljúga fram hjá.“

Bríet: „Við ræðum leikina eftir á til að finna út hvernig við getum bætt okkur og hvað aðrir segja skiptir ekki öllu máli fyrir okkar niðurstöðu.“

Rúna: „Í sumar hefur líka verið einstaklingur frá KSÍ á hverjum leik að fylgjast með störfum dómara í efstu deildum bæði karla og kvenna. Það er gagnlegt.“

Strákar taka meiri spretti

Þær telja framkomu við kvendómara síst verri en við karla í sömu stöðum hér á landi, af hálfu leikmanna og áhorfenda, og segjast fá mikinn stuðning frá öðrum dómurum og KSÍ.

Jovana: „Hér á Íslandi er miklu meira jafnrétti í fótboltanum en í Serbíu. Þar eru margar stúlkur að spila og dæma en það er alltaf litið á þær sem annars flokks, jafnvel þótt þær standi sig betur en strákarnir.“

En er ólíkt að dæma konur og karla?

Bríet: „Nei, ég undirbý mig ekkert öðruvísi fyrir karlaleik en kvennaleik. Þetta er sama verkefnið og sömu reglur sem við fylgjum þó við sjáum aðeins aðra útfærslu á fótboltanum eftir kynjum. Stelpur hlaupa til dæmis á jafnari hraða en strákar, þeir taka meiri spretti en dómarinn getur verið jafnþreyttur eftir kvenna- og karlaleik og það er gott að skipta á milli. Því betri sem leikmenn eru, því skemmtilegra er dómarastarfið.“ Þetta taka hinar undir.

Rúna: „Mér finnst fínt að taktíkin sem stelpur og strákar nota skuli ekki vera alveg eins. Þeir eru með hraðari skiptingar.“

Jovana: „Mér finnst meira gaman að dæma strákaleiki, það er enn meiri áskorun.“

Bríet er nemi í sjúkraþjálfun, Rúna vinnur í Hinu húsinu og Jovana er viðskiptaþróunarstjóri í verkfræðifyrirtæki. En skyldi dómarastarfið vera vel launað?

„Það gerir þetta enginn nema hann hafi virkilegan áhuga,“ segir Bríet. „Ég lít ekki á dómarastarfið sem vinnu,“ segir Rúna. „Þetta bara eins og að stunda íþrótt. Ég þarf að halda mér við þó tímabilið sé búið því ég gæti fengið verkefni erlendis.“

Þær fullyrða að launin séu þau sömu hjá báðum kynjum, Jovana segir það þannig í Serbíu líka.

Rúna og Bríet eiga báðar kærasta. Rúna heldur að sínum kærasta hafi fundist það frekar skrítið í byrjun að hún væri knattspyrnudómari.

„Það er ekki eins og það sé algengt,“ segir hún.

Miklir möguleikar

Bríet telur það vera af ókunnugleika á dómarastarfinu sem svo fáar konur sinna dómgæslu í boltaleikjum.

Rúna: „Það er svo mikil gagnrýni á dóma og stelpum finnst það kannski fráhrindandi. En mér finnst þær ættu að prófa. Í því felast svo mikil tækifæri. Tveimur árum eftir að ég byrjaði var ég komin á alþjóðlegan lista og á fjórum árum er ég búin að fara 15 til 20 ferðir til útlanda til að dæma, stundum bara einn landsleik, stundum túra, til landa sem ég færi aldrei annars til. Var í Rúmeníu fyrir þremur vikum, til dæmis.“

Alla hvetja þær stelpur til að koma í dómarahópinn og segja miklu meiri möguleika þar en á að komast í landslið.

„Ef stelpur hafa áhuga og hæfni og eru tilbúnar að leggja á sig þá vinnu sem þarf til að ná langt í dómarastarfinu þá er það fljótt að gerast,“ segir Rúna.

„Strákar eru að keppa við 50 aðra. Við erum bara fjórar á landinu enn svo við komumst miklu hraðar upp listann, þv á alþjóðavísu dæma konur konur og karlar karla.“

Bríet: „Þó ég hafi ekki aldur enn til að vera á alþjóðalista get ég tekið þátt í æfingamótum erlendis. Við Rúna og Birna Bergstað vorum til dæmis á Spáni að dæma á æfingamóti landsliða undir 23 ára og við Jovana fórum til Svíþjóðar að dæma á móti undir 16 ára landsliða.“

Jovana: „Fyrir mig var það lógískt að fara út í dómgæslu eftir að ég hætti að spila fótbolta því ég elska fótbolta. En þó svo stelpur hafi ekki æft þá eru þær samt velkomnar til að læra reglurnar og dæma og hafa gaman. Það eru mín skilaboð.“

„Þetta er skemmtilegt aukastarf og félagsskapurinn góður,“ segir Birna Bergstað.Mynd/Auðunn Níelsson
Birna Bergstað Þórmundsdóttir, öryggisvörður hjá Securitas á Akureyri, er ein þeirra fjögurra íslensku kvenna sem dæma í efstu deildum á landsvísu, mest norðan heiða. Þar sem tengsl dómara við leikmenn eru bönnuð er hún spurð hvort þær reglur þvælist ekkert fyrir henni í fámenninu. „Nei,“ svarar hún. „Ég er fædd og uppalin á Blönduósi og hef bara tengingar þangað. Þar er ekkert kvennalið og ég dæmi ekki þar.“

Þór KA er í Pepsideild kvenna og Birna kveðst hafa dæmt marga leiki með því liði, líka hjá öðrum kvennaliðum, svo sem á Sauðárkróki og Húsavík og karlaliðum á Dalvík og Grenivík.

„Þetta er skemmtilegt aukastarf og félagsskapurinn góður,“ segir hún og kveðst hafa smitast af dómaraáhuganum af Kristni Jakobssyni frænda sínum.

„Ég bara dreif mig á námskeið og kastaði mér út í djúpu laugina.“ Segir stefnuna hafa á tímabili verið að komast á alþjóðalistann en hún sé ekki sérlega spennt fyrir því lengur. „Ég á tvö börn og met meira að eiga tíma með þeim. Þetta er ágætt svona.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×