Innlent

Maður skorinn illa með dúkahníf á Flúðum

Bjarki Ármannsson skrifar
Tjaldstæðið á Flúðum.
Tjaldstæðið á Flúðum. Vísir/Vilhelm
Ungur maður var í nótt fluttur á slysadeild eftir að hann skarst illa í áflogum á skemmtistaðnum Útlaganum á Flúðum. Aðstandendur hins slasaða leita vitna að atburðinum en ungi maðurinn var illa skorinn á fótlegg með dúkahníf, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Athugið að myndin fyrir neðan er ekki fyrir viðkvæma.

Að sögn aðstandenda lenti sá slasaði í orðaskaki við karlmann á þrítugsaldri sem hafði verið með alvarlegar hótanir í garð viðskiptavina skemmtistaðarins. Fór svo að mennirnir lentu í stympingum með þeim afleiðingum að sá eldri skar þann yngri illa á fótlegg með dúkahníf sem sá eldri var með á sér. Átökin áttu sér stað á þriðja tímanum í nótt.

Ungi maðurinn eyddi stórum hluta næturinnar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi en er nú kominn heim. Hann ku vera óvinnufær næstu mánuði vegna skurðarins, en dúkahnífurinn fór í gegnum vöðva mannsins. Aðstandendur þess slasaða hyggjast kæra hinn aðilann fyrir tilraun til manndráps og hvetja vitni að slagsmálunum, þá sérstaklega stúlku sem ræddi við hinn slasaða í nótt, að gefa sig fram til Lögreglunnar á Selfossi.

Ekki náðist í rannsóknarlögreglu á Selfossi við gerð fréttar en staðfest er að enginn er í haldi vegna atviksins.

Hér gefur að líta fótlegg hins slasaða í nótt.Mynd/Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×