Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi kemur inn með kraft og djöfulgang

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Brynjar Gauti Guðjónsson segist spenntur fyrir leiknum gegn KR.
Brynjar Gauti Guðjónsson segist spenntur fyrir leiknum gegn KR. Vísir/Vilhelm
ÍBV tekur á móti KR í seinni undanúrslitaleik Borgunarbikarsins klukkan 18:00 í kvöld. Brynjar Gauti Guðjónsson, varnarmaður ÍBV, segir stemmninguna í Eyjaliðinu góða.

„Stemmningin er virkilega góð. Menn eru spenntir fyrir að spila þennan mikilvæga leik. Það er Þjóðhátíð framundan og menn vilja byrja hana vel,“ sagði Brynjar í samtali við Vísi í dag.

„Ég býst við hörkuleik. Okkur hefur ekki gengið nógu gegn KR á undanförnum ár, en það er kominn tími til að breyta því og við ætlum að gera það í kvöld.“

ÍBV hefur gengið vel að undanförnu og unnið þrjá af síðustu fjórum deildarleikjum sínum. Byrjunin á mótinu var erfið en Brynjar er ánægður með framfarirnar sem Eyjaliðið hefur sýnt á síðustu vikum.

„Við höfum verið að byggja upp okkar leik og það er komið mikið sjálfstraust í liðið. Við spiluðum illa í upphafi móts og vorum að fá á okkur mikið af mörkum undir lok leikja,“ sagði Brynjar sem bætti við að fyrsti sigurinn hefði gefið liðinu mikið.

„Við fengum meira sjálfstraust og héldum áfram að vinna í því sem þurfti að laga. Við erum orðnir nokkuð frambærilegir núna.“

Brynjar segir nýju leikmennina, sem ÍBV fékk í félagaskiptaglugganum, hafi komið vel inn í liðið.

Þórarinn (Ingi Valdimarsson) kemur inn með kraft og djöfulgang, en hann hefur verið að spila í toppdeild í Noregi. Isak Nylén eykur breiddina og það er gott að hafa hann á bekknum til að koma inn á og valda usla þegar þess þarf. Andri Ólafsson kemur svo með reynslu inn í hópinn, en hann þekkir allt og alla hérna enda Eyjamaður í húð og hár.“

Brynjar segir að liðsmenn ÍBV verði svo auðvitað á Þjóðhátíð um helgina.

„Við erum á Eyjunni og förum ekkert af henni um helgina,“ sagði Brynjar í léttum dúr að lokum.


Tengdar fréttir

Verða vonandi tólfti leikmaður liðsins

KR hefur hent ÍBV úr bikarnum þrisvar sinnum á síðustu fjórum árum. Nú mætast liðin á ný í Eyjum. Matt Garner segir bikarinn hafa bjargað tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×