Skoðun

Obama, stöðvaðu blóðbaðið á Gasa!

Sveinn Rúnar Hauksson skrifar
Ábyrgð Bandaríkjanna á stríðsglæpunum á Gasa er mikil. Það eru ekki bara vopnin og peningarnir til að heyja þetta miskunnarlausa og einhliða árásarstríð gegn óbreyttum borgurum og sér í lagi börnum sem eru í meirihluta á Gasa. Heldur er það líka neitunarvald Bandaríkjanna sem hefur verið notað aftur og aftur til að hindra Sameinuðu þjóðirnar í að gegna skyldu sinni, veita Palestínumönnum vernd, binda enda á ólöglegt hernám og grípa inn í hernað Ísraels með afgerandi hætti.

Obama Bandaríkjaforseti hefur óskað eftir vopnahléi á svæðinu en allar hans ræður, á meðan heimurinn horfir á fjöldamorðin í beinni útsendingu, byrja á yfirlýsingu um óhagganlegan stuðning við Ísrael og rétt þess til að verja sig. Fjöldi drepinna af Ísraelsher er kominn yfir 1.300 manns, þar af eru yfir 90% óbreyttir borgarar, ekki síst konur og börn.

Yfir sjö þúsund manns liggja slasaðir, margir alvarlega og varanlega örkumla. Umsátrið, sem felur í sér algera innilokun 1,8 milljóna manns á örlitlu svæði, gerir afleiðingarnar ólýsanlega erfiðar. Ísraelsher sprengdi aðalraforkuverið í loft upp og olíutankarnir þar standa í björtu báli. Það mun taka ár að gera þar við og koma því aftur í notkun. Hreint vatn er ekki fáanlegt, skólpinu er ekki hægt að dæla frá án rafmagns, matvælin skortir, lyf og lækningatæki. Þetta er ekkert annað en hryðjuverk.

Eldflauga- og sprengjuregnið heldur áfram. Nú eru það sjúkrahús og skólar Flóttamannahjálpar SÞ, UNRWA, sem verða fyrir sprengjum Ísraels, þar sem fólk hefur leitað skjóls. Samkvæmt SÞ eru 215 þúsund manns á flótta innan Gasa, en hafa í engan öruggan stað að flýja.

Það er ekki hægt að horfa upp á þetta deginum lengur. Bandaríkjastjórn verður að hætta að tala tungum tveimur og taka í hnakkadrambið á Netanyahu og herforingjum hans. Hingað og ekki lengra. Afléttið umsátrinu um Gasa og stöðvið fjöldamorðin strax. Þetta verða kröfur dagsins við sendiráð Bandaríkjanna í dag kl. 17, hér í Reykjavík og um allan heim.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×