Lífið

Stelpur rokka á öllum aldri

Áslaug Einarsdóttir
Áslaug Einarsdóttir Fréttablaðið/Valli
Sérstakar kvennarokksumarbúðir verða haldnar næstu helgi fyrir konur, tuttugu ára og eldri.

Það eru Stelpur rokka! sem standa fyrir búðunum en þetta er þriðja sumarið í röð sem þær eru haldnar.

Í rokkbúðunum læra konur á hljóðfæri, að spila í hljómsveit, fá þekkta tónlistarkonu í heimsókn og enda á alvöru rokktónleikum þar sem þær flytja frumsamið efni, en skráningarfrestur rennur út á föstudaginn.

Áslaug Einarsdóttir, framkvæmdastýra búðanna, segir viðtökurnar hafa verið góðar undanfarin ár.

„Þetta er annað árið í röð sem við bjóðum upp á rokkbúðir fyrir tuttugu ára og eldri en þriðja árið sem við bjóðum upp á rokksumarbúðir fyrir 12-16 ára stelpur. Yngri stelpurnar sækja búðirnar í tvær vikur en þær eldri þjappa þeim saman í eina helgi.“

Helsta markmið búðanna að sögn Áslaugar er að vekja áhuga stelpna og kvenna á rokktónlist og tónlistarbransanum.

„Langtímamarkmið okkar er að leiðrétta kynjahalla í tónlistarbransanum. Þar hallar verulega á konur. Markmið kvennarokkbúðanna er einnig að kynna starf okkar fyrir konum svo hægt sé að fjölga þeim í sjálfboðaliðahópi okkar. Þær eru líka hugsaðar sem fjáröflun fyrir þær yngri stelpur sem ekki hafa ráð á að borga fyrir námskeiðið. Það hefur alltaf verið fullt hjá okkur og búðirnar hafa vakið mikla athygli en tónlistarkonur hafa verið mjög hjálplegar og lánað okkur hljóðfæri og ýmsan búnað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.