Erlent

Úkraínuforseti lagstur í rúmið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu.
Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu. Vísir/AP
Viktor Janúkóvitsj, forseti Úkraínu, er kominn með kvef og háan hita. Hann er því lagstur í rúmið og óvíst hvenær hann verður fær um að taka til starfa á ný.

Opinber tilkynning um þetta var birt í morgun.

Tímasetningin er frekar óþægileg fyrir forsetann, þar sem hann hefur undanfarnar vikur glímt við fjöldamótmæli gegn sér. Mótmælin hafa magnast jafnt og þétt og ekkert lát á.

Jafnvel hefur vaknað sá grunur, í röðum mótmælenda, að ákveðið hafi verið á bak við tjöldin að Janúkóvitsj færi í veikindaleyfi, en í reynd væri verið að bola honum frá völdum.

„Ég man ekki til þess að áður hafi birst opinber tilkynning um að Viktor Janúkovitsj hafi fengið kvef. En ég man vel eftir því sem gerðist 19. ágúst árið 1991, þegar Gennadí Janajev, varaforseti Sovétríkjanna, tilkynnti að Mikhaíl Gorbatsjov ætti við alvarleg veikindi að stríða,” skrifar Vítalí Portnikov, pólitískur pistlahöfundur í Úkraínu, á Facebook-síðu sína.

Þetta gerðist þegar harðlínukommúnistar, sem voru ósáttir við umbótatilraunir Gorbatsjovs, reyndu að steypa honum af stóli.

Mótmælendur í Úkraínu hafa haldið ótrauðir áfram í dag, þrátt fyrir að Janúkóvitsj hafi í gær boðið eftirgjöf að hluta. Mótmælendur krefjast þess að hann segi af sér. Það sé það eina sem dugi í stöðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×