Lífið

Nálgast verkin á óhefðbundinn máta

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Ragnheiður Gestsdóttir
Ragnheiður Gestsdóttir MYND/Úr einksafni
„Við erum búin að vera að vinna að myndinni í nokkur ár og útkoman er tilraunakennd mynd sem blandar saman skáldskap og raunveruleika,“ segir Ragnheiður Gestsdóttir, myndlistarmaður og annar leikstjóri kvikmyndarinnar Æ ofan í æ, sem byggð er á ævi og list myndlistarmannsins Hreins Friðfinnssonar.

Þetta er í fyrsta sinn sem mynd er gerð um Hrein, en hann hefur notið gríðarlegrar velgengni sem myndlistarmaður um alla Evrópu. Ásamt Ragnheiði leikstýrir myndinni Markús Þór Andrésson sýningarstjóri.

„Við nálgumst verkin hans Hreins á óhefðbundinn hátt. Við notum listina og hans líf sem innblástur í sögur sem við svo segjum í myndinni,“ útskýrir Ragnheiður.

Markús og Ragnheiður kynntust Hreini fyrir rúmum áratug. „Við heilluðumst af manninum og verkunum og urðum öll vinir. Það var svo seinna sem hugmyndin að myndinni kom til,“ bætir hún við, en myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíð í Helsinki í Finnlandi á laugardaginn.

Markús ÞórMYND/Úr einkasafni
„Við fengum boð um að sýna myndina þar, sem er mikill heiður og við hlökkum til. Við erum með meðframleiðendur í Finnlandi og í aðalhlutverki er Kati Outinen, en hún er finnsk leikkona og eflaust hvað best þekkt fyrir að leika í nánast öllum myndum leikstjórans Aki Kaurismäki, sem er ein vinsælasta útflutningsvara Finna,“ segir Ragnheiður, létt í bragði. 

Auk Kati, leikur Hreinn sjálfur í myndinni og Magnús Logi Kristinsson, en hann er íslenskur myndlistarmaður sem búsettur er í Finnlandi.

Myndin verður frumsýnd á Íslandi í tengslum við sýningu sem þau Markús og Ragnheiður setja upp í Nýlistasafninu á verkum Hreins í kringum Listahátíð í apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.