Lífið

Veðurteppt á Austur-Grænlandi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Sýningin á Pioneer á Íslandi verður sú fyrsta utan Grænlands.
Sýningin á Pioneer á Íslandi verður sú fyrsta utan Grænlands. Mynd/Einkasafn
Pipaluk K. Jørgensen er höfundur og leikstjóri grænlensku dans- og söngsýningarinnar Pioneer sem verður sýnd í Nemendaleikhúsinu á laugardag. Fréttablaðið náði tali af Pipaluk í gær, en þá var hún veðurteppt á Austur-Grænlandi. „Það stóð til að fljúga til Íslands í dag, en fluginu var aflýst vegna stormviðris,“ segir Pipaluk. „Vonandi getum við flogið héðan á morgun.“

Sýningin á laugardaginn verður fyrsta sýningin á Pioneer utan Grænlands. „Við höfum hins vegar ferðast með hana til sex bæja á Grænlandi,“ segir Pipaluk. Sýningin hefur notið töluverðra vinsælda á Grænlandi. Síðast sýndi hópurinn í bænum þar sem þau eru veðurteppt. „Í gær komu 800 manns á sýninguna. Það er nánast allur þessi litli bær.“

Pipaluk skrifaði leikritið, leikstýrði því og framleiddi það, en Karina Møller samdi dansa. Pipaluk lærði leiklist í Danmörku 2001-2003. „Eftir það stofnaði ég mitt eigið leikfélag og fór að skrifa. Þetta er fjórða leiksýningin sem ég skrifa og leikstýri. Ég hef unnið við sjónvarp og leikhús síðustu sex ár, en hjartað er í leikhúsinu,“ segir Pipaluk.

Pioneers var frumsýnt síðasta haust. „Leikritið fjallar um fortíð, nútíð og framtíð Grænlands. Það fjallar líka um gamlar goðsögur, en á nútímalegan hátt. Tónlistin í leikritinu er nýmóðins. Kimmernaq Kjeldsen syngur tónlistina í verkinu og við notum líka tónlist eftir hljómsveitina Nanook, sem hefur notið mikilla vinsælda á Grænlandi,“ segir Pipaluk. „Síðan notum við myndefni frá Visit Greenland. Þar er mikið af fallegum myndum af snjó, norðurljósum og hundasleðum.“ Visit Greenland er fjárhagslegur bakhjarl verkefnisins.

Pipaluk hefur áður komið til Íslands í frí, og vonast til þess að kynnast fólki úr íslenskum leiklistarheimi. Pipaluk segist hafa verið í sambandi við Steinunni Knútsdóttur, formann leiklistardeildar Listaháskóla Íslands. „Við stefnum jafnvel á að vinna saman í framtíðinni. Þær áætlanir eru þó skammt á veg komnar. Nú vonumst við bara til þess að veðrið batni svo við komumst til Íslands í tæka tíð fyrir þessa sýningu,“ segir Pipaluk.

Pioneer verður sýnt í Listaháskóla Íslands við Sölvhólsgötu laugardaginn 1. febrúar klukkan 20.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.