Íslenski boltinn

Arnþór: Þessi dýfa var kjánaleg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arnþór Ari Atlason skoraði og dýfði sér í teignum.
Arnþór Ari Atlason skoraði og dýfði sér í teignum. Vísir/daníel
Arnþór Ari Atlason fór mikinn hjá Fram í kvöld sem vann stórsigur á nýliðum Fjölnis, 4-1.

Hann lagði upp annað mark liðsins og skoraði það þriðja en tveimur mínútum áður en hann skoraði fékk hann að líta gula spjaldið fyrir dýfu.

„Ég er mjög ánægður með stoðsendinguna og markið en þessi dýfa var kjánaleg og það verður hraunað yfir mig fyrir þetta og gert mikið grín að mér. Ég get tekið því, er með breitt bak,“ sagði Arnþór Ari við blaðamann Vísis á vellinum í kvöld.

„Við vorum frábærið í þessum leik og liðsheildin frábær. Dýfan setur strik í reikninginn en sigurinn var frábær. Við vorum mikið betri en Fjölnir í þessum leik.

„Það er gott að skora og kominn tími á það. Það var langt síðan ég skoraði síðast,“ sagði Arnþór sem þakkaði því að sigurinn að Framarar voru klárir í baráttuna strax í upphafi leiks.

„Við vorum með gott leikskipulag fyrir leikinn. Fyrst og fremst vorum við klárir í leikinn frá fyrstu mínútu. Við vildum þetta meira en þeir og vorum ákveðnari. Við vitum að við erum góðir í fótbolta og við þurfum bara að mæta klárir í slaginn í hverjum leik. Þá munum við hala inn stigum.

„Það eru mjög mikil gæði í þessum hóp og við verðum betri og betri er líður á tímabilið. Við erum að þjappa okkur betur og betur saman,“ sagði Arnþór Ari Atlason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×