Innlent

Elstu systur landsins 384 ára

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Anna Margrét Franklínsdóttir og Litla-Fjarðarhorn.
Anna Margrét Franklínsdóttir og Litla-Fjarðarhorn. MYND/LANGLÍFI

Anna Margrét Franklínsdóttir á Selfossi er 104 ára í dag, fædd 15. júní 1910 að Litla-Fjarðarhorni í Kollafirði í Strandasýslu. Frá þessu greinir vefsvæðið Langlífi.

Foreldrar hennar voru Franklín Þórðarson og Andrea Jónsdóttir en Andrea varð 97 ára gömul. Í systkinahópi Önnu Margrétar voru þau alls þrettán og er meðalaldur þeirra 91 ár.

Aðstandendur Langlífis geta sér til um að þarna sé um met að ræða þegar svo mörg systkini eiga í hlut.

Fjögur af systkinunun eru enn á lífi. Auk Önnu Margrétar eru það Nanna Franklínsdóttir, sem er elsti Siglfirðingurinn en hún er 98 ára, Margrét Franklínsdóttir 92 ára, og Guðborg Franklínsdóttir 90 ára. Þær þrjár eru allar búsettar á Siglufirði. Af þeim systkinum sem eru látin náði eitt 98 ára aldri, eitt varð 94 ára, eitt 93 ára, eitt 92 ára og eitt 90 ára.

Þannig hafa níu af þrettán systkinum frá Litla-Fjarðarhorni náð níutíu ára aldri. Það er því greinilega langlífi í ættinni. Ekki einungis er systkinahópurinn langlífur heldur náði ein frænka þeirra 107 ára aldri og bróðir hennar varð100 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×