Enski boltinn

Lineker vill sjá ungu stjörnurnar á EM 2015

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barkley og Martinez.
Barkley og Martinez. Vísir/Getty
Gary Lineker, stjórnandi Match of the Day á BBC og fyrrverandi landsliðsframherji Englands, vill sjá England tefla fram eins sterku liði og mögulegt er á EM U-21 árs landsliða sem fer fram í Tékklandi á næsta ári.

„Það mun ekki gerast, en ég vildi óska þess að þjálfarar í ensku úrvalsdeildinni myndu styðja við bakið á ungum leikmönnum og landsliðsferli þeirra,“ skrifaði Lineker á Twitter í gær, en Gareth Southgate, þjálfari enska U-21 árs landsliðsins ku vilja hafa úr öllum sínum bestu leikmönnum að velja.

„Allir helstu stjörnuleikmenn okkar sem eru gjaldgengir í U-21 árs liðið ættu að taka þátt á EM ef þeir eru heilir. Aðrar þjóðir krefjast þess af leikmönnum sínum.

„Ég skil að þjálfarar hugsi aðeins um eigin hag, en væri það ekki gott til tilbreytingar ef þeir myndu bera hag landsliðsins fyrir brjósti,“ bætti Lineker við.

Bæði Roberto Martinez, knattspyrnustjóri Everton, og Arsene Wenger hjá Arsenal hafa lýst yfir áhyggjum sínum af mögulegu álagi leikmanna sem munu taka þátt á EM.

Martinez og Wenger eru báðir með leikmenn í sínum röðum sem eru enn gjaldgengir í U-21 árs landsliðið, þrátt fyrir að vera að spila með A-landsliðinu. Þar má m.a. nefna Ross Barkley og John Stones hjá Everton og Arsenal-mennina Alex Oxlade-Chamberalain, Jack Wilshere og Calum Chambers.

Raheem Sterling, leikmaður Liverpool, hefur einnig verið nefndur í þessu samhengi, en hann er enn aðeins 19 ára gamall.

England tryggði sér farseðilinn til Tékklands með 4-2 samanlögðum sigri á Króatíu í tveimur umspilsleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×