Lífið

Syngur lög sem móðir hennar gerði fræg

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Adda á yngri árum
Adda á yngri árum
Ragnhildur Dóra Þórhallsdóttir sópransöngkona heldur tónleika í Salnum í Kópavogi á sunnudaginn.

Þar hyggst hún flytja lög móður sinnar, Arnbjargar Auðar Örnólfsdóttur eða Öddu Örnólfs eins og hún er kölluð. Hún var ein vinsælasta dægurlagasöngkona á Íslandi á sjötta áratug síðustu aldar.

„Mamma var uppgötvuð í söngprufum sem KK sextettinn hélt í Gúttó árið 1953. Þar var hún valin úr hópi annarra söngvara til þessa að syngja þar,“ segir Ragnhildur. Eftir það söng hún inn á plötur með tónlistarmönnum eins og Ólafi Briem og Smárakvartettinum, ásamt því að koma fram við hin ýmsu tækifæri. Lengst af var hún söngkona Aage Lorange og hljómsveitar sem spiluðu í Tjarnarkaffi í Reykjavík. Ragnhildur segir að ferill móður hennar hafi verið afar farsæll, þótt stuttur væri.

„Það voru ekki margar konur að syngja þá. Ingibjörg Þorbergs, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Ellý Vilhjálms voru vinsælar, en það voru auðvitað miklu fleiri karlmenn í tónlistargeiranum þá. Það var erfiðara fyrir þær að sameina fjölskyldulíf og tónlistarferil en karlana,“ segir Ragnhildur en Adda hætti að mestu að syngja opinberlega í kringum 1960. Með Ragnhildi á tóneikunum verður Einar Clausen tenór sem syngur lög Alfreðs Clausen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×