Fótbolti

Hallgrímur: Pirrandi að fá á sig mark úr föstu leikatriði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Brussel skrifar
Hallgrímur Jónasson stóð vaktina í vörn Íslands gegn sterku liði Belgíu í Brussel í kvöld en þar höfðu heimamenn betur, 3-1.

„Mér fannst fyrri hálfleikur fínn. Þeir voru mikið með boltann en mér fannst ganga vel að loka á þá. Þeir skoruðu svo mark úr föstu leikatriði sem er pirrandi en sem betur fer komum við til baka strax aftur,“ sagði Hallgrímur en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„Það var gott jafnvægi á liðinu í fyrri hálfleik en það gefur augaleið að þegar svo margar breytingar eru gerðar á liðinu að það vanti aðeins að slípa liðið betur til.“

„Það var erfiðara að eiga við þá í síðari hálfleik þegar þeir settu tvo framherja í sóknina hjá sér og mér fannst jafnvægið í leik okkar ekki jafn gott.“

Hann segir að það sé alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt enda hafi íslenska liðið skapað nokkuð færi og látið Thibout Courtois hafa fyrir hlutunum í markinu.

„Nú fengu leikmenn tækifæri sem hafa lítið spilað og fyrir mig persónulega var það afar mikilvægt. Þetta er löng keppni og maður vonast alltaf til að fá að spila.“


Tengdar fréttir

Lars: Meiri samkeppni í liðinu

Landsliðsþjálfarinn fagnar meiri breidd í íslenska liðinu eftir góða frammistöðu í Brussel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×