„Ég er að ganga frá í vinnunni og svo skelli ég mér heim, fer í úlpuna og á leikinn,“ sagði Arnar Þór eldhress í samtali við Vísi í dag. Aðspurður segist hann ekki hafa hitt leikmenn liðsins en það standi til bóta í kvöld.
„Ég hef ekki mikinn tíma til að vera að hanga fyrir utan hótelið hjá strákunum. En ég fer í kvöld og það er skemmtilegt að KSÍ hafi boðið mér á leikinn. Það verður gaman að hitta allt fólkið sem maður umgekkst reglulega fyrir nokkrum árum.“

Arnar Þór lék sem atvinnumaður í átján ár, lengst af hjá Lokeren og Cercle Brugge í Belgíu. Hann spilaði 52 A-landsleiki á glæsilegum ferli. Honum verður veitt viðurkenning á leiknum í kvöld.
„Ef menn spila 50 landsleiki fá þeir listaverk að gjöf,“ segir Arnar Þór sem er stoltur yfir gengi íslenska liðsins undanfarið.
„Ég sá leikinn gegn Hollandi og það hefur verið mikið talað um hve vel spilandi íslenska liðið sé bæði í Belgíu og Hollandi. Ég tel hins vegar að Belgarnir séu sterkari en Hollendingar á þessari stundu svo þetta verður erfiður leikur í kvöld.“
Reynsluboltinn 36 ára minnir á að um æfingaleik sé að ræða. Nóg verði af skiptingum og ólíklegt að menn fari af 100 prósent krafti í tæklingar. Það verði hins vegar gott fyrir íslenska liðið að fá samanburð við svo sterkt lið.

„Það er mikill áhugi fyrir fyrir belgíska liðinu. Þó það sé ekki uppselt á leikinn eins og er venjulega þá er örugglega búið að selja 40 þúsund miða,“ segir Arnar Þór. Hann minnir þó á að Ísland sé ekki stærsta þjóð í heimi sem útskýri hvers vegna ekki sé uppselt. Belgar upplifi það ekki alveg eins og Brasilía sé í heimsókn.
„Okkur finnst við oft vera rosalega stór þjóð en við erum ekki stór knattspyrnuþjóð á evrópskan mælikvarða,“ segir Arnar léttur. Honum líður vel í starfinu hjá Cercle þótt mikið sé að gera.
„Við erum í erfiðri stöðu og þurfum að vinna okkur upp töfluna og bæta leik liðsins. Það er að mörgu að huga. En þetta er tækifæri sem maður tekur báðum höndum.“
Leikur Belga og Íslendinga hefst klukkan 19:45 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.