Íslenski boltinn

Bjarni lofar Íslandsmeistaratitli í Vesturbænum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
„Við verðum Íslandsmeistarar," segir nýráðinn þjálfari KR, Bjarni Guðjónsson, en Guðjón Guðmundsson fór í klefann með Bjarna og gerði innslag um hann á Stöð 2 í gær.

Bjarni Guðjónsson er öllum hnútum kunnugur í Vesturbænum. Tveir Íslandsmeistaratitlar og þrír bikarmeistaratitlar komu í hús þegar hann var leikmaður félagsins og lengst af fyrirliði. Nú situr Bjarni hinum megin við borðið.

„Þetta verður öðruvísi en ég hef fengið ágæta reynslu á síðasta ári af fara yfir í hitt sætið. Það á vonandi eftir að nýtast mér vel í þessu nýja starfi," sagði Bjarni.

„Kröfurnar eru miklar en það er að hluta til það sem er spennandi við starfið, að fara inn í svona umhverfi þar sem kröfurnar eru miklar. Við það að kröfurnar eru miklar þá er umgjörðin líka mjög góð og hér leggjast allir á eitt til þess að liðið sé gott, til þess að árangur náist, ekki bara þjálfarinn og leikmenn heldur allir sem að félaginu koma," sagði Bjarni.

KR er stórveldi og í gegnum tíðina hafa verið settar miklar kröfur á þjálfara félagsins. En hvernig fótbolta vill Bjarni spila?

„Við ætlum að sækja þegar við erum með boltann og verjast án hans, en við vitum það líka að stuðningsmenn KR eru kröfuharðir. Við erum það líka, við ætlum að fá góða leikmenn, við erum með góða leikmenn og við ætlum að spila góðan og skemmtilegan fótbolta," sagði Bjarni.

„Það sem gerir þetta svona spennandi og sexí er að vera í svona umhverfi þar sem krafan er að vinna titilinn og það vita það allir. Við leggjum allir á eitt til þess að þetta markmið náist," sagði Bjarni sem segir leikmannamálin vera í farvegi og hann er sannfærður um að hlutirnir muni ganga upp næsta sumar.

„KR verður Íslandsmeistari," sagði Bjarni en það má sjá allt innslagið hjá Gaupa með því að smella á myndbandstáknið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Ekki allir sem fá annan séns

Bjarni Guðjónsson fékk á þriðjudaginn eitt eftirsóttasta þjálfarastarfið í íslenska boltanum þrátt fyrir að hafa fallið með Fram á sínu fyrsta ári sem þjálfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×