Körfubolti

Einn besti dómari landsins fær ekki leik

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Tómas Tómasson var einn af dómurunum í oddaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra.
Davíð Tómas Tómasson var einn af dómurunum í oddaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. vísir/Anton

Athygli vekur að Davíð Tómas Tómasson, einn fremsti körfuboltadómari landsins, er ekki á meðal þeirra sem fá að dæma í fyrstu umferð úrslitakeppni Bónus-deildar karla.

Úrslitakeppnin hefst í kvöld með tveimur leikjum, þegar Tindastóll mætir Keflavík og Valur mætir Grindavík. Á morgun eigast svo við Njarðvík og Álftanes, og Stjarnan og ÍR.

Davíð dæmir engan af þessum leikjum en samkvæmt upplýsingum Vísis er hann heill heilsu og ekkert því til fyrirstöðu að hann dæmi leiki.

Vísir hafði samband við Jón Bender, formann dómaranefndar KKÍ, en hann kvaðst ekki hafa tíma til að ræða málið við blaðamann vegna anna í vinnu og ferðalags norður á Sauðárkrók.

Davíð er alþjóðlegur dómari og hefur í vetur dæmt fjölda leikja erlendis, bæði í forkeppnum EM kvenna og HM karla, og í FIBA Europe Cup.

Hans þjónustu virðist aftur á móti ekki óskað nú þegar hápunktur íslenska tímabilsins er að hefjast og ekki liggur fyrir hvers vegna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×