Innlent

Úgandamaður hefur orðið fyrir aðkasti í kjölfar viðtals

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Karim Birimumaso vill berjast fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda.
Karim Birimumaso vill berjast fyrir réttindum samkynhneigðra í Úganda. Vísir/Valli

„Það er alls ekki rétt að ég sé á móti samkynhneigðum og vilji refsa þeim,“ segir Úgandamaðurinn Karim Birimumaso, sem var í viðtali við Fréttablaðið á miðvikudaginn.

Viðtalið vakti hörð viðbrögð, enda mátti skilja það svo að Karim aðhyllist að flestu leyti þá fordóma sem landlægir eru í heimalandi hans gagnvart samkynhneigðum.

Hann hefur orðið fyrir margvíslegu aðkasti hér á landi eftir að viðtalið birtist og vill endilega koma því á framfæri að misskilnings hafi gætt í viðtalinu. Nú er jafnvel svo komið að honum hefur verið vikið úr aukastarfi, sem hann vinnur á kvöldin.

Þegar Karim ræddi við blaðamann á þriðjudaginn var honum mikið niðri fyrir og vildi ólmur útskýra af hverju Úgandamenn hafi andúð á samkynhneigðum.

Hann vildi koma því á framfæri við Íslendinga að fordómarnir í Úganda stafi bæði af almennri fáfræði um samkynhneigð en líka vegna þess að algengt sé að reynt sé með gylliboðum hvers kyns að fá ungt fólk til þess að stunda vændi, og það sé iðulega gert undir merkjum samkynhneigðar.

„Vandinn er sá að Úgandamenn rugla þessu tvennu saman, mansali og samkynhneigð. Það er nauðsynlegt að stöðva mansalið.“

Hann segir það misskilning blaðamanns, sem fram kom í viðtalinu, að hann sjálfur rugli þessu tvennu saman: „Mansal hefur auðvitað ekkert með samkynhneigð að gera.“ Hann vilji hins vegar fara til Úganda og uppfræða heimamenn þar um samkynhneigð: „Það þarf að segja þeim að til sé fólk sem er fætt samkynhneigt. Það sem nú þarf að gera er að samtök samkynhneigðra taki sig saman og segi Úgandamönnum þetta.“

Karim, sem er hið mesta ljúfmenni í viðkynningu, segist hafa verið lengi að átta sig á þessu.

„Það hefur tekið mig þessi fjögur ár frá því ég kom til Íslands.“

Nú er hann hins vegar orðinn mikill áhugamaður um að tryggja mannréttindi samkynhneigðra í Úganda. Hann vilji til dæmis alls ekki sjá vini sína eða ættingja fara í fangelsi fyrir að vera samkynhneigðir.

Uppfærsla kl. 14:32

Yfirmaður Karims hafði samband við Vísi og vildi koma því á framfæri að einungis hafi verið ákveðið að gefa honum frí yfir helgina til að hlífa honum við hugsanlegu aðkasti. Honum hafi ekki verið vikið úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×