Erlent

Harðari átök í Kobane

Samúel Karl Ólason skrifar
Kúrdar hafa varið Kobane gegn Íslamska ríkinu í rúma tvo mánuði.
Kúrdar hafa varið Kobane gegn Íslamska ríkinu í rúma tvo mánuði. Vísir/AP
Vígamenn Íslamska ríkisins hafa aukið pressuna á verjendur sýrlensku borgarnnar Kobane, en sveitir Kúrda hafa varið borgina frá því í september. IS gerði fjórar sjálfsmorðsárásir á verjendur borgarinnar og féllu minnst 25.

Átökin um borgina hafa kostað hundruð lífið og rúmlega 200 þúsund Kúrdar neyddust til að flýja yfir landamærin til Tyrklands. Tyrkir hafa leyft sveitum Kúrda að fara yfir landamærin og þannig komast hjá vígamönnum IS sem umkringt hafa borgina. Þá styðja Bandaríkin og bandamenn þeirra vörnina með loftárásum.

BBC segir fyrstu árásina hafa verið gerða nærri landamærum Tyrklands þar sem maður hafi sprengt bíl sinn í loft upp. Þrjár aðrar árásir voru gerðar og þar af tvær á bílum. BBC hefur heimildir fyrir því að í kjölfar árásanna hafi IS keyrt skriðdreka inn í borgina.

IS hefur hertekið hluta Kobane og fjölmörg nærliggjandi þorp í sókn sem staðið hefur yfir í rúma tvo mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×