Lífið

Listaverk úr veggflísum kennara og nemenda

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Sumir vilja hafa dansleik á sínu svæði og aðrir andlitsmálningu. Þetta verður ekta afmælisstuð,“ segir Hólmfríður.
"Sumir vilja hafa dansleik á sínu svæði og aðrir andlitsmálningu. Þetta verður ekta afmælisstuð,“ segir Hólmfríður. Vísir/Stefán
„Við höfum verið að undirbúa afmælið í vikunni. Höfum til dæmis verið að ganga frá listaverki sem allir nemendur og starfsmenn eiga sína hlutdeild í. Hver og einn málaði á eina veggflís, þeim flísum var svo raðað saman í eitt verk á vegg hér innanhúss.“

Þetta segir Hólmfríður G. Guðjónsdóttir, skólastjóri Hólabrekkuskóla í Breiðholti, um hátíðahöld vegna fjörutíu ára afmælis skólans.

„Svo unnum við út frá einkunnarorðum skólans, sem eru virðing, gleði og umhyggja. Settum upp tré og skreyttum það með útklipptum skýjum eða stjörnum, árituðum út frá einkunnarorðunum,“ bætir hún við.



Aðspurð kveðst Hólmfríður hafa stjórnað Hólabrekkuskóla í tíu ár. „Það hafa bara verið tveir skólastjórar hér frá upphafi,“ segir hún.

„Sigurjón Fjelsted var skólastjóri frá 1974 til 2004, hann tók eitt ár í námsleyfi og þá var settur skólastjóri á meðan. Svo er ég búin að vera hér frá 2004.“

Þegar haft er orð á að þetta hljóti að vera gott starf svarar Hólmfríður að bragði: „Ja, þetta er góður skóli.“ Og spurð hvort honum hafi haldist vel á kennurum líka segir hún: „Já, það er mjög stabíll kjarni hérna.“

Hólabrekkuskóli var stofnaður í september 1974 en var byggður í áföngum. Hólmfríður segir að frá september 1974 fram í desember það ár hafi kennsla á vegum skólans líka farið fram í Fellaskóla og Réttarholtsskóla.

„Fyrsta skólaárið voru um 350 nemendur í Hólabrekkuskóla. Svo verður skólinn þriðji fjölmennasti skóli landsins árið 1980 með 1.150 nemendur. En í dag eru nemendur 485 talsins. Þetta er svona þróunin. Það hefur orðið breyting á ýmsu öðru líka enda er íslenskt þjóðfélag orðið mun alþjóðlegra en það var fyrir fjörutíu árum og í Hólabrekkuskóla er þversnið af því.“

Í dag verður dagskrá á sal Hólabrekkuskóla, að sögn Hólmfríðar, og sögu skólans verða gerð skil í máli og myndum. Þá verður risaterta borin á borð og foreldrafélagið ætlar að sjá um að deila henni út. „Svo verða ótal stöðvar um skólann og við tókum tillit til hugmynda nemenda þegar við skipulögðum þær, sumir vilja hafa dansleik á sínu svæði og aðrir andlitsmálningu. Þetta verður ekta afmælisstuð.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×