Erlent

Loftárásir Bandaríkjahers hafnar í Írak

Atli Ísleifsson skrifar
Íraksher hefur þurft að kljást við liðsmenn íslamistasamtakanna IS í nokkra mánuði.
Íraksher hefur þurft að kljást við liðsmenn íslamistasamtakanna IS í nokkra mánuði. Vísir/AFP
Bandaríkjaher hóf loftárásir gegn íslamistasamtakanna IS nú fyrir stundu.

Í frétt BBC segir að talsmenn Bandaríkjahers segi árásirnar hafa beinst gegn stórskotaliði sem berst gegn hersveitum Kúrda við borgina Irbil í norðurhluta landsins.

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í nótt að hann hefði heimilað loftárásir í Írak gegn IS-hreyfingunni.

Tók forsetinn sérstaklega fram að ekki standi til að senda hermenn á ný til Íraks en loftárásunum verður beint gegn liðsmönnum IS sem sakaðir eru um slátrun á fólki af öðrum trúarbrögðum í norðurhluta Íraks.

Í gær bárust fregnir af því að IS hefði tekið völdin í borginni Qaraqosh, þar sem er stærsta samfélag kristinna í Írak. Þúsundir íbúa borgarinnar eru nú á flótta undan vígamönnum samtakanna.

Liðsmenn IS hafa sótt mikið fram að undanförnu, fyrst og fremst í norðvesturhluta Íraks þar sem þeir hafa náð Mosul, næststærstu borg landsins, á sitt vald.

Stjórn IS-samtakanna byggir á mjög íhaldssamri túlkun á íslam sem hefur nú leitt til þess að 200 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín síðustu daga.


Tengdar fréttir

Obama heimilar loftárásir í Írak

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í nótt að hann hefði heimilað loftárásir í Írak gegn íslömsku öfgamönnunum í Isis-hreyfingunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×