Innlent

Embla og Freyja Haraldsdóttir hættar hjá NPA

Jakob Bjarnar skrifar
Freyja Haraldsdóttir hefur verið potturinn og pannan hjá NPA miðstöðinni en er nú horfin frá.
Freyja Haraldsdóttir hefur verið potturinn og pannan hjá NPA miðstöðinni en er nú horfin frá. ernir eyjólfsson
NPA miðstöðin hélt sérstakan aukaaðalfund 20. janúar síðastliðinn og var þá kosin ný stjórn. Ásdís J Ástud Ástráðsdóttir var kosin formaður stjórnar -- Embla Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir víkja en þær voru stjórnarformaður og framkvæmdastýra.

Nýr varaformaður er Rúnar Björn Þorkelsson. Hann setur stjórnarskiptin í samhengi við mikinn launakostnað miðstöðvarinnar. „Við réðum ekki við það lengur. Svo voru stelpurnar, sem voru í starfi, að fara í annað; Freyja og Embla Ágústdóttir, eru að fara í skóla.“

Rúnar Björn segir ekki fjármagn lengur til að halda þeirri starfsemi sem var en miðstöðin var með launaða starfsmenn. „Við þurfum að draga saman seglin í bili. Það eru ekki að koma inn eins miklar tekjur og áætlað var. Það eru ekki eins margir samningar og við áttum von á miðað við hversu mikið var búið að vinna að því. Og takmarkaður styrkur frá Reykjavíkurborg,“ segir Rúnar Björn. Hann gerir ráð fyrir því að stjórnin sem nú situr haldi áfram eftir aðalfund í vor – þó ekki sé hægt að segja til um það núna.

NPA er skammstöfun fyrir notendastýrða persónulega aðstoð. „NPA er þjónustuform sem byggir á því að fötluð manneskja fái fjármagn frá sveitarfélagi sínu til að sjá um og skipuleggja sína eigin aðstoð,“ segir á heimasíðu miðstöðvarinnar. Fjármagnið sem hver fær er er reikna út frá því hversu margar klukkustundir í mánuði sá þarf í aðstoð. Samningurinn skiptist í þrennt sem er 85 prósent laun og launatengd gjöld til aðstoðarfólks, 10 prósenta umsýslukostnaður sem fer til NPA og fimm prósent vegna útlags kostnaðar við aðstoðarfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×