Lífið

Íslendingar áttu Gautaborgarhátíðina

Þorbjörg Helga er stödd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.
Þorbjörg Helga er stödd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Fréttablaðið/Anton Brink
Íslenskri kvikmyndagerð var gert hátt undir höfði á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg.

Hross í oss, eftir Benedikt Erlingsson, var í aðalkeppni hátíðarinnar ásamt myndinni Málmhaus eftir Ragnar Bragason. Meðal Íslendinga á hátíðinni var Þorbjörg Helga Dýrfjörð, aðalleikkonan í Málmhaus, en frammistaða hennar á hvíta tjaldinu vakti sérstaka athygli á hátíðinni.

„Ég var í Gautaborg til að fylgja eftir myndinni. Bæði Málmhaus og Hross í oss voru í aðalkeppninni þannig að hér eru staddir aðstandendur beggja mynda sem og aðrir Íslendingar sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt,“ segir Þorbjörg.

Hún segir Gautaborgarhátíðina hafa verið mjög skemmtilega en Ísland var í brennidepli á hátíðinni.

„Hjaltalín hélt tónleika á miðvikudagskvöldið sem voru rosalega vel heppnaðir. Við Benni [innskot blaðamanns: Benedikt Erlingsson] fengum svo að stíga okkar fyrstu skref sem plötusnúðar og það var ekki leiðinlegt að sjá Svíana dilla sér við Pamelu í Dallas,“ segir Þorbjörg, létt í bragði.

„Baltasar kom til að taka á móti heiðursverðlaunum og hélt svokallaðan „masterclass“ sem var mjög áhugaverður,“ bætir Þorbjörg við og segir Ara Eldjárn einnig hafa slegið í gegn sem kynnir á verðlaunaafhendingunni á lokakvöldinu.

Málmhaus og Hross í oss voru sýndar þrisvar á hátíðinni, sem og aðrar íslenskar bíómyndir, bæði gamlar og nýjar.

„Undirtektirnar voru mjög góðar og margir eru gáttaðir á því hvernig Íslendingar ná að framleiða svona mikið af góðum bíómyndum,“ segir Þorbjörg.

Málmhaus er nú komin með dreifingaraðila í Svíþjóð.

„Það er auðvitað mjög gott út af fyrir sig. Það var einmitt mikið rætt á hátíðinni hversu sorglega lítið væri um dreifingu mynda frá Norðurlöndum innan Norðurlandanna. Svíar eru mikil metal-þjóð og kunna að meta gott sósíaldrama þannig að ég er full tilhlökkunar að frumsýna myndina hérna úti í lok febrúar.“

Þorbjörg er tilnefnd til Eddunnar fyrir hlutverk sitt í Málmhaus.

„Það er mikill heiður að vera tilnefndur til Eddunnar og sérstaklega ánægjulegt af því að mér þykir svo vænt um þetta hlutverk. Það verður gaman að hitta Málmhaus-hópinn aftur og gleðjast saman á þessari uppskeruhátíð sjónvarps og kvikmyndagerðarfólks,“ segir Þorbjörg að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.