„Ég byrjaði í bakstrinum en fór svo að færa mig meira út í eldamennskuna. Á blogginu er þetta allt í bland,“ segir Gígja. Hún leggur enga ofuráherslu á heilsufæði þó það leynist inni á milli. „Ég leyfi mér alveg litlar syndir og held að það sé allt í lagi ef maður borðar hollt á móti.“
Gígja er 25 ára gömul og er enn að skapa sér eigin jólahefðir. Hún gefur hér uppskrift að hnetusmjörskossum sem hún smakkaði í fyrsta skipti í fyrra. „Ég smakkaði þá hjá frænku minni og ákvað að taka þá upp hjá mér þessi jól. Ég hef verið að gera súkkulaðibitakökur, sörur og aðrar smákökur sem mamma mín og amma hafa bakað í gegnum tíðina. Mér finnst þessar pínulítið óhefðbundnar og mig langar að bæta þeim við jólabaksturinn í ár.

1 poki Hershey's Kisses
½ bolli feiti (Palmín)
2 msk. mjólk
½ bolli hnetusmjör
1 stórt egg
2-3 teskeiðar vanilludropar
½ bolli sykur
2 bollar hveiti
1 tsk. matarsóti
½ bolli púðursykur
½ tsk. salt
sykurskraut að vild
Hitið ofninn í 190 gráður. Takið bréfin af kossunum.
Hrærið vel saman feiti og hnetusmjöri í hrærivél. Bætið við sykri og púðursykri og hrærið þar til létt. Bætið eggi, mjólk og vanilludropum við og hrærið vel. Hrærið hveiti, salti og matarsóda saman í annarri skál og setjið út í hnetusmjörsblönduna. Ef blandan er ekki nógu þykk og erfitt er að móta kúlur er í lagi að bæta við aðeins af hveiti.
Kökurnar eru mótaðar í litlar kúlur á bökunarpappír og bakaðar í 8-10 mínútur í miðjum ofni. Kossarnir eru settir á kökurnar um leið og þær koma út úr ofninum og þær varlega færðar af bökunarplötunni.