Viðskipti innlent

133 milljóna tekjur af sölu hreindýraleyfa

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vísir / Vilhelm
Heildartekjur af sölu hreindýraleyfa voru 133 milljónir króna á síðasta ári. Landeigendur og ábúendur fengu langstærstan hluta þeirra tekna í sinn vasa, eða 107 milljónir. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur, þingkonu Framsóknarflokksins.

Inni í þessum tölum eru staðfestingargjald þegar veiðileyfi er ekki greitt að fullu en tekjur vegna skila á leyfum hækkuðu umtalsvert á milli 2012 og 2013. „Auk þess sem færst hefur í aukana að veiðimenn skili leyfum. Óvissa er um hvort þetta er tímabundið ástand vegna breyttra reglna,“ segir í svarinu.

Líneik Anna spurði einnig um tekjur af sölu hreindýraafurða á síðasta ári en samkvæmt ráðherra voru engar tekjur af slíkri starfsemi. „Engar tekjur voru af sölu hreindýraafurða árið 2013 þar sem ekki var verkunarstöð með starfsleyfi frá Matvælastofnun,“ segir Sigurður Ingi í svari sínu.

Viðtakendur arðs af hreindýraveiðum voru 962 og var meðaltalsupphæð greiðslan 111.000 krónur. Lægsta greiðslan var ekki nema 82 krónur en sú hæsta var rúmar 1,2 milljónir. Ekki er um að ræða einstaklinga í þessum tölum heldur greiðslur vegna stakra jarða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×