Sagan segir að Anna hafi falið ástmann sinn í Paradísarhelli en þar skammt frá, í félagsheimilinu Heimalandi, sýnir Leikfélag Austur-Eyfellinga þessa dagana leikgerð sögunnar um Önnu á Stóru-Borg; um ástir ríkrar konu og fátæks vinnumanns.

„Anna á Stóru-Borg er raunveruleg persóna því það eru heimildir til um hana í skjölum sextándu aldar í sambandi við bæði hennar ástamál og svo fráfall Páls, bróður hennar, og erfðamál í sambandi við það,” segir Þórður.

„Gamla fólkið sagði þetta fullum fetum. Þeir sögðu mér, gömlu mennirnir, að Hjalti hefði búið í tvö ár í Paradísarhelli,” segir Þórður.
Á Byggðasafninu á Skógum eru varðveittir munir frá Stóru-Borg, eins og barnsskór, sem Þórður telur ekki fjarstæðu að tengja við þau börn sem ástarsamband Önnu og Hjalta gat af sér.
Þau Þórunn Ólafsdóttir og Jón Helgi Ingvarsson leika parið á sviðinu. Eiginmaður Þórunnar, Jón Sigurðsson, leikur einnig í verkinu en þó ekki ástmanninn unga. Hann var spurður hvort sér fyndist ekki erfitt að sjá eiginkonuna fara upp í rúm með ungum pilti: „Það er ágætt að geta haft auga með því,” svaraði hann hlæjandi.
