Innlent

Breytinga að vænta hjá ÍNN

Samúel Karl Ólason skrifar
„Ég er að koma inn hjá Ingva Hrafni og við erum annarsvegar að taka inn nýja fjárfesta og ætlum að taka stöðina á næsta level, skerpa á dagskránni og laga útlit og annað,“ segir Guðmundur Örn Jóhannsson, nýr sjónvarpsstjóri hjá ÍNN. Hann segir breytinga að vænta á stöðinni um mánaðarmótin.

„Við munum halda okkur við það sem við höfum að gera. Sambland af fræðslu, skemmtun, umræðu og öðru. „Við ætlum að taka til í dagskránni, það eru einhverjir þættir sem munu hverfa og aðrir sem koma nýir inn. Við ætlum að fá nokkrar kanónur með okkur.“

„Ég vil fá meira af staðreyndum og minna af fólki að rífast. Meira hlutlaust í stað upphrópanna. Við munu leggja áherslu á það,“ segir Guðmundur.

Þetta er áttunda árið sem Ingvi Hrafn hefur rekið ÍNN og Guðmundur segist bera virðingu fyrir honum fyrir að hafa haldið þessu í gangi í þennan tíma.

„Við erum lítil stöð en höldum að það sé pláss fyrir okkur á markaðinum. Við lítum á okkur sem fína viðbót við flóruna sem fyrir er og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni,“ segir Guðmundur.

Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við nýja þætti á ÍNN eru Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, Sölvi Tryggvason og Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson.

Páll Magnússon, sagði í samtali við Vísi að enn væri óráðið hvort yrði af þáttaröð hans á ÍNN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×