Handbolti

Guðjón Valur spilar á morgun

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
"Ég geri sömu kröfur til mín fyrir alla leiki á meðan ég er í búningi. Það eru engar afsakanir og ekkert væl," segir Guðjón Valur Sigurðsson en hann tók þátt af fullum krafti á æfingu landsliðsins í dag.

Ekki var endilega búist við því að Guðjón Valur myndi ná þessum leik vegna sinna meiðsla en hann hefur náð góðum bata á síðustu dögum og kenndi sér einskis mein í dag.

"Ef ég fer í treyjuna þá býð ég mig fram í að spila í 60 mínútur. Ef ég get eitthvað þá spila ég þann tíma en ef ég get ekkert þá tekur þjálfarinn mig bara út af," segir Guðjón Valur ákveðinn.

"Síðasta mánudag var ég ekki endilega að reikna með því að geta spilað gegn Norðmönnum. Ég vissi ekki alveg hver staðan á mér væri því ég gat ekkert látið reyna á það. Það hefur verið góður stígandi í þessu og ég tók gott próf á fimmtudaginn."

Undirbúningur landsliðsins hefur verið erfiður og Guðjón og Arnór Atlason til að mynda lítinn þátt geta tekið í honum. Guðjón óttast ekki að það muni koma niður á liðinu.

"Skiptir ekki máli. Við erum hérna og til þess að standa okkur. Við erum komnir til þess að gera einhverja hluti. Tökum vel á því og sjáum svo til hverju það skilar okkur."

Viðtalið við Guðjón Val má sjá í heild sinni hér að ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×