Innlent

Endanleg ákvörðun um nýjan ráðherra tekin í gær

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson tók endanlega ákvörðun um ráðherraskipan í gærkvöldi. Hér ræðir hann við fréttamenn að loknum þingflokksfundi í morgun.
Bjarni Benediktsson tók endanlega ákvörðun um ráðherraskipan í gærkvöldi. Hér ræðir hann við fréttamenn að loknum þingflokksfundi í morgun. Vísir/ GVA
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók endanlega ákvörðun um skipan nýs innanríkisráðherra um kvöldmatarleytið í gær. Hann tjáði blaðamönnum þetta að loknum þingflokksfundi í morgun. Hann vill ekki segja hvenær hann bað Ólöfu Nordal fyrst um að taka að sér embættið.

„Ég ætla að geyma það sem trúnaðarmál milli mín og hennar. En eins og gefur að skilja þá þurfti ég að biðja hana um að íhuga þetta fyrir nokkrum dögum síðan. Það var ekki fyrr en eftir kvöldmat í gærkvöldi að ég setti mig í samband við hana og sagði henni að ég væri kominn að endanlegri niðurstöðu,“ sagði Bjarni við blaðamenn.

Bjarni segist hafa rætt við Einar K. Guðfinnsson, forseta þingsins, um að taka embættið að sér. „Það er rétt að sama dag og Hanna Birna tjáði mér að hún myndi óska lausnar úr embætti, þá setti ég mig í samband við Einar Kristinn og bað hann um að íhuga það hvort hann vildi koma og leysa hana af hólmi. Við höfum í millitíðinni átt nokkur samtöl, síðast í gær, og niðurstaðan er sú að hann óskar ekki eftir því að það verði gerðar breytingar á hans stöðu,“ sagði Bjarni. Hann hafi þá ekkert verið að þrýsta frekar á um það og því hafi hann gert þessa tillögu.

Aðspurður hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins sé sáttur við að fá utanþingsmanneskju í starfið sagðist Bjarni hafa sest niður með þingmönnum og rætt málin undanfarna daga.

„Og ég hef orðið þess áskynja í þeim samtölum sem ég hef átt að þingmenn gera sér grein fyrir því að þetta eru svolítið óvenjulegar aðstæður sem við stöndum frammi fyrir. Það sem hefur verið mér efst í huga í þessu og ég óskaði eftir skilningi þingflokksins á því er að þegar öllu er á botninn hvolft þá þurfum við að fá manneskju sem getur leyst verkefnin vel af hendi, landi og þjóð til heilla. Einhverri sem við getum öll treyst. Einhverri sem sjálfstæðismenn og landsmenn allir geta treyst til verksins. Og ég tel að með því að leggja Ólöfu Nordal til að þá séum við að uppfylla öll þessi skilyrði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×