Hinn samkynhneigði Michael Sam segir að það hafi lítið með hæfileika sína að gera að hann sé ekki að spila í NFL-deildinni.
Sam stóð sig frábærlega sem varnarmaður í háskólaboltanum og hann ákvað svo að koma út úr skápnum áður nýliðavalið fór fram í NFL-deildinni.
Ekkert félag í deildinni var til í að velja hann í liðið þá. Hann fékk þó tækifæri í vetur í æfingahópum St. Louis og Dallas. Hvorugt liðið samdi þó við hann.
„Ég var besti varnarmaðurinn í SEC-deildinni í fyrra þannig að það hefur greinilega ekkert með hæfileikana að gera að ég sé ekki að spila í NFL-deildinni," sagði Sam.
Hann neitar þó að gefast upp og ætlar að leggja áfram hart að sér í von um að komast að í deildinni.

