Erlent

Dómur fellur í máli News of the World

Bjarki Ármannsson skrifar
Andy Coulson og Rebekah Brooks stýrðu bæði blaðinu News of the Word á sínum tíma.
Andy Coulson og Rebekah Brooks stýrðu bæði blaðinu News of the Word á sínum tíma. NordicPhotos/AFP
Rebekah Brooks, fyrrverandi framkvæmdastjóri News International og ritstjóri dagblaðanna News of the World og The Sun, var sýknuð af dómstólum í Bretlandi í dag af ákærum um símahleranir, mútur og að hindra framgöngu réttlætis. Brooks var ein af sjö fyrrverandi starfsmönnum dagblaðanna tveggja sem réttað hefur verið yfir undanfarna átta mánuði.

Andy Coulson, fyrrum ritstjóri News of the World sem starfaði síðar sem fjölmiðlaráðgjafi David Cameron forsætisráðherra, hlaut dóm fyrir símahleranir. Charlie Brooks, eiginmaður Rebekah, og Cheryl Carter, fyrrum aðstoðarmaður hennar, voru einnig sýknuð af ákærum um að hafa eytt sönnunargögnum árið 2011.

Dagblaðinu News of the World, sem var í eigu auðkýfingsins Rupert Murdoch, var lokað árið 2011 eftir að upp komst að starfsmenn þess höfðu hlerað síma myrtu skólastúlkunnar Milly Dowler.


Tengdar fréttir

Opinber afsökunarbeiðni Rupert Murdoch

Fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch hefur gefið út opinbera afsökunarbeiðni þar sem hann biðst velvirðingar á því hvernig vikuritið News of the World bar sig að við fréttaskrif, en Murdoch tók þá ákvörðun fyrir stuttu að leggja útgáfu blaðsins niður. Vikublaðið breska kom út í síðasta skipti mánudaginn 11. júlí, eftir að hafa verið starfandi í 168 ár frá stofnun þess árið 1843.

Brooks handtekin vegna símhleranamálsins

Rebekah Brooks, fyrrum stjórnandi hjá News International í Bretlandi, hefur verið handtekin í tengslum við símhleranamálin sem hafa skekið breskt samfélag að undanförnu. Brooks var handtekin eftir skýrslutökur á lögreglustöð í Lundúnum og er hún í gæsluvarðhaldi. Fram kemur á fréttavef BBC að þetta er tíunda handtakan í tengslum við ásakanir á hendur dagblaðinu News of the World um símhleranir.

Feðgarnir segjast ekkert hafa vitað um hleranirnar

Í yfirheyrslum breskrar þingnefndar yfir eigendum og fyrrverandi framkvæmdastjóra vikublaðsins News of the World héldu þau öll því fram að þau hefðu ekkert vitað um ólöglegt athæfi á vegum blaðanna.

Ákærur gefnar út í símahlerunarmálinu

Saksóknari í Bretlandi tilkynnti í dag hverjir verða ákærðir í hinu svonefna símahlerunarmáli. Meða þeirra eru Andy Coulson, sem var ritstjóri News of the World blaðsins áður en hann gerðist fjölmiðlafulltrúi David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Rebekah Brooks, sem einnig var ritstjóri.

Blaðamenn hleruðu talhólf prinsanna

Talhólf prinsanna Harry og Vilhjálms voru hleruð af blaðamönnum News of the World, þetta kom fram í réttarhöldum vegna hlerana blaðsins í dag.

Fjölmiðlakóngur biðst afsökunar

Helstu blöð Bretlands birta í dag heilsíðuauglýsingar frá Rupert Murdoch vegna þess sem hann kallar alvarlegar misgjörðir News of the World. Í auglýsingunni segir „Okkur þykir fyrir þeim alvarlegu misgjörðum sem átt hafa sér stað.". Rebekah Brooks, fyrrverandi ritstjóri News of the World og Les Hinton, stjórnandi hjá útgáfufyrirtækinu News Corporation, sögðu upp störfum í gær vegna símahlerunarhneykslis sem skekið hefur Bretland að undanförnu.

Fjölmiðlaveldi í uppnámi

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, kallaði þjóðþing landsins saman á neyðarfund í gær til að ræða hleranamálið, sem hefur ekki aðeins grafið undan trausti fólks á fjölmiðlaveldi Ruperts Murdoch, sem kannski var þó eitthvað takmarkað fyrir, heldur einnig til bresku lögreglunnar og forsætisráðherrans sjálfs. Tíu manns hafa verið handteknir vegna málsins síðan í byrjun apríl, bæði vegna rannsóknar á símahlerunum blaðamanna fjölmiðlasamsteypunnar og vegna rannsóknar á því hvort breskir lögreglumenn hafi þegið fé frá fjölmiðlum Murdochs í skiptum fyrir upplýsingar.

Ritstjóri fékk 300 milljónir við starfslok

Rebekah Brooks, fyrrverandi ritstjóri götublaðsins sáluga News of the World , sem sagði af sér sem framkvæmdastjóri News International í kjölfar símhlerunarhneyklisins fyrr á þessu ári, fékk 1,7 milljónir punda, jafnvirði 300 milljóna króna í starfslokagreiðslu frá Rupert Murdoch þegar hún lét af störfum. Þá var skrifstofuaðstaða og limósína með einkabílstjóra hluti af starfslokagreiðslum hennar, en frá þessu er greint í breska dagblaðinu Guardian. Brooks hætti í júlí eftir að undirmenn hennar og blaðamenn News of the World urðu uppvísir af símhlerunum. Hún var meðal annars handtekin og sleppt gegn tryggingu vegna gruns um að hafa vitað af símhlerunum og borið á þeim ábyrgð en hún hefur hins vegar ekki verið ákærð.

Brooks vísar ákærum á bug

Rebekah Brooks, fyrrverandi framkvæmdastjóri vikublaðsins News of the World, hefur verið ákærð fyrir að hafa reynt að halda leyndum upplýsingum um símhleranir, sem stundaðar voru af blaðamönnum blaðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×