Innlent

Ný krabbameinsáætlun í lok ársins

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
VÍSIR/GETTY
Ný krabbameinsáætlun verður lögð fram í lok þessa árs að því er Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra reiknar með. Í henni verður fjallað um faraldsfræði krabbameina, skráningu þeirra, forvarnir og heilsugæslu. Rannsóknir og gæðastjórnun, meðferðarþætti og mannafla, eftirmeðferð og líknandi meðferð.

Ráðherrann ræddi meðal annars um gerð hinnar nýju áætlunar á afmælisráðstefnu Krabbameinsfélags Íslands á föstudaginn var. Þar var haldið upp á tvenn tímamót, 50 ára starfsafmæli Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins og 60 ára afmæli Krabbameinsskrárinnar.

„Þetta umfangsmikla verkefni er nú óðum að taka á sig mynd og ég bind vonir við að hægt verði að leggja fram Krabbameinsáætlun undir lok þessa árs. Gert er ráð fyrir að setja fram markmiðsmælda og tímasetta aðgerðaáætlun til þriggja eða fimm ára,“ segir Kristján.

Verkefninu hefur verið skipt upp í fimm afmarkaða verkþætti sem unnið hefur verið að í jafnmörgum vinnuhópum. Þetta eru vinnuhópar um faraldsfræði og skráningu, forvarnir og heilsugæslu, rannsóknir og gæðastjórnun, meðferðarþætti og mannafla og loks hópur um eftirmeðferðarþætti og líknandi meðferð.

„Þvert á þessa hópa starfa tveir rýnihópar sem í eiga sæti fulltrúar fullorðinna sem greinst hafa með krabbamein og fulltrúar krabbameinsgreindra barna og aðstandenda þeirra,“ segir Kristján.

Hann sagði að þótt við hefðum ekki sigrast á krabbameinum byggjum við nú að viðamikilli þekkingu og upplýsingum sem byggst hafa upp í gegnum árin og áratugina. Meðal annars með markvissri skráningu krabbameina og upplýsinga um þau. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×