Handbolti

Karen: Flora er einstakur karakter

Ingvi Þór Sæmundsson í Laugardalshöll skrifar
Karen Knútsdóttir var allt í öllu í sóknarleik Íslands þegar liðið lagði Ítalíu að velli í Laugardalshöll í dag.

Karen skoraði 11 af 27 mörkum Íslands og tók oft af skarið á mikilvægum augnablikum. Hún var að vonum sátt þegar blaðamaður Vísis hitti hana að máli eftir leik.

„Varnarleikurinn var góður, líkt og í fyrri leiknum, en við gerðum alltof mikið af mistökum í dag, sérstaklega í seinni bylgjunni.

„Það hefði getað reynst dýrt gegn sterkara liði en Ítalíu, en við höfðum sex marka sigur sem er fínt,“ sagði Karen, en fyrri leik liðanna lyktaði einnig með íslenskum sigri, 17-26.

Karen segir íslenska liðið geta bætt margt í sínum leik.

„Það er margt sem við getum bætt. Við erum að fá nokkra leikmenn til baka og það tekur tíma að spila sig saman,“ sagði landsliðsfyrirliðinn og bætti við:

„Við erum búnar að fá fjögur stig af fjórum mögulegum sem er mjög jákvætt.

„Varnarleikurinn hefur verið sterkur og Flora (Florentina Stanciu) mjög öflug í markinu.

„Hún er einstakur karakter og það er frábært að hafa hana á æfingum og í leikjum. Hún gefur sig alltaf 100% og gefur okkur ofboðslega mikið með þessum öskrum og látum.

„Hún er frábær íþróttamaður,“ sagði Karen um Florentinu sem varði 26 skot í íslenska markinu í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×