Tónlist:
Guðrún Ingimarsdóttir sópran og Rastrelli sellókvartettinn
Listasafn Íslands sunnudaginn 21. september
Ég heyrði strengjakvartett skilgreindan á eftirfarandi hátt á sunnudagskvöldið: Fyrsta fiðlan er góði fiðluleikarinn, önnur fiðlan er lélegi fiðluleikarinn og víólan er fyrrverandi fiðluleikarinn. Sellóleikarinn er hins vegar maðurinn sem hatar fiðluleikarana.
Það var listrænn stjórnandi Rastrelli sellókvartettsins sem komst svo að orði á tónleikum í Listasafni Íslands á sunnudagskvöldið. Samkvæmt skilgreiningunni samanstóð kvartettinn þar af fjórum mönnum sem þola ekki fiðluleikara. Ástæðan fyrir hatrinu er sú að fiðluleikarar fá alltaf að spila safaríku melódíurnar á sinfóníutónleikum. Sellóin eru oftast í leiðinlega undirleikshlutverkinu. Það er óþolandi.
En ekki núna. Hér var enginn fiðluleikari til að eyðileggja stemninguna. Sellóin voru allt í öllu. Og samt ekki. Guðrún Ingimarsdóttir sópran söng með kvartettinum í u.þ.b. helmingi dagskrárinnar.
Sambandið á milli hennar og kvartettsins var dálítið spes. Þegar Guðrún var ekki að syngja spilaði kvartettinn eldfjöruga tónlist. Þar á meðal var 24. kaprísa Paganinis. Hún var í hugmyndaríkri útsetningu eins sellóleikarans, Sergei Drabkin, sem útsetti líka hin lögin á dagskránni. En þegar Guðrún gekk inn í salinn datt allt í dúnalogn. Maður fékk að heyra íslenska vögguvísu, Við gengum tvö, o.s.frv. Það var eins og sellóleikararnir væru snarvitlausir krakkar að leika sér inni í stofu, en Guðrún væri mamma þeirra. Þegar mamman labbaði inn í stofuna hegðuðu krakkarnir sér almennilega. En um leið og hún fór út voru þeir komnir upp um alla veggi á ný.
Guðrún er frábær söngkona og hún er stórglæsileg á sviði. Hún söng af gríðarlegri tilfinningu og tæknilegum yfirburðum. Röddin var tær og fókuseruð, kraftmikil og fögur. Djasslögin eftir hlé, eins og t.d. Night and Day eftir Cole Porter og I Got Rythm eftir Gershwin voru þó ekkert sérstaklega sannfærandi hjá henni. Slík lög þurfa aðeins hrárri söngstíl. Guðrún er of skóluð sem óperusöngkona. En hún söng lögin engu að síður vel á sinn hátt, því er ekki hægt að neita.
Sellóleikararnir voru magnaðir. Eins og áður segir voru þeir ákaflega fjörugir, samspilið var pottþétt og þeir hristu erfiðustu tónahlaup fram úr erminni. Þetta með að Guðrún væri eins og mamma þeirra fjaraði smám saman út, og undir það síðasta var söngkona og kvartett eins og ein manneskja. Það var skemmtilegt.
Loks ber að nefna að það var ánægjuleg upplifun að fara á tónleika í Listasafni Íslands. Ég held að ég hafi ekki gert það síðan Harpan var opnuð. Hljómburðurinn í safninu er prýðilegur og það er gaman að vera innan um öll flottu málverkin. Ég vona að ég fái að fara oftar á tónleika þarna í framtíðinni.
Niðurstaða: Flottir tónleikar með frábærri söngkonu og fjórum afburða sellóleikurum.
Keflavík
Grindavík