Lífið

Heillaði meðlimi Wagnerfélagsins

Ugla Egilsdóttir skrifar
Þorleifur Örn Arnarsson.
Þorleifur Örn Arnarsson.
Þorleifur Örn Arnarsson frumsýndi síðastliðinn föstudag uppsetningu sína á Niflungunum eftir Christian Friedrich Hebbel í borgarleikhúsinu í Bonn í Þýskalandi.

Auk Þorleifs koma Símon Birgisson, Filippía Elíasdóttir og Vytautas Narbutas að uppsetningunni, en þau hafa öll starfað í íslensku leikhúsi.

„Maður finnur í öllu umhverfi þessa leikhúss hvað það er stórt í sniðum,“ segir Þorleifur Örn. „Bygging þess á sjöunda áratugnum var liður í því að búa til höfuðborgarstemningu þegar Bonn var höfuðborg Vestur-Þýskalands.“

Leikhúsið nýtur mikillar virðingar í Þýskalandi. Þorleifur segist samt sem áður ekki stefna á nein heimsyfirráð. „Ef maður væri á þeim buxunum væri þessi sýning skref í þá átt, en svo er ekki.

Þetta er hluti af ferðalagi sem við erum á og á hverju ári stækka leikhúsin og verkin og pressan eykst. Við verðum líka villtari og villtari í því hvernig við búum til leikhús.“

Leikritið Niflungarnir, sem var skrifað á nítjándu öld, er verk sem allir Þjóðverjar þekkja. „Það er eins og Hamlet fyrir Bretum, eða Skugga-Sveinn eða Galdra-Loftur fyrir okkur Íslendingum. Þessi saga er ein af þeim sem nasistarnir lyftu hvað mest upp á stall.

Fræg er ræða sem Hermann Göring hélt yfir hermönnum í Stalíngrad árið 1943 rétt fyrir fall Stalíngrad. Hann biðlaði til hermannanna að standa saman og deyja saman, eins og Niflungarnir í höll Atla Húnakonungs.“

Mynd/Thilo Beu.
Þorleifur segist hafa ákveðið frelsi undan nasistasögunni sem Íslendingur.

„Yfirleitt er lögð meiri áhersla á hana í uppsetningum á þessu leikverki. Mín nálgun var ekki þrúguð sögulegri merkingu umfram það að við viðurkenndum sögulegu merkinguna í leikmyndinni.

Vytautas Narbutas byggði fyrir okkur eins konar ruslahauga þýskrar sögu í leikhúsinu, og á þeim lékum við Niflungana okkar.“

Þorleifur segist hafa einblínt á hugmyndina um hetjuna í sviðsetningu sinni.

„Ég velti hetjunni fyrir mér út frá svipaðri nálgun og bókmenntafræðingurinn Helga Kress hefur skrifað um Íslendingasögurnar. Þessar hetjur eru hlægilegar út frá nútímasjónarmiði. Ég leyfi mér að gera Niflungana nánast að kómedíu.“

Leikmyndin í Niflungunum er eftir Vytautas Narbutas.Mynd/Thilo Beu
Sýningin hefur fengið góða dóma.

„Sýningin hefur vakið sterk viðbrögð hjá fólkinu sem ég hélt að myndi ekki skilja þetta.

Ég var kallaður á fund hjá Wagnerfélaginu, sem er einhver íhaldssamasti félagsskapur í Þýskalandi, og var beðinn um að útskýra nálgun mína á verkinu.

Í þeim félagsskap þekkir fólk verkið utan að og spyr krefjandi spurninga, og þetta var fólkið sem svo var hrifnast að frumsýningu lokinni.“ 

Í uppfærslu Þorleifs er ýmislegt sem hann taldi fyrirfram að myndi koma við kaunin á hópi áhorfenda.

„Kona fer úr að neðan í sýningunni. Svo eru karakterar smurðir í blóði og drullu. Þessir hlutir eru yfirleitt á bannlista góðborgaraáhorfenda, en það virðist vera nægilega sterkt innihald í sýningunni til þess að fólk kaupi það.“

Þorleifur heldur að sýningin höfði til ungs fólks. „Það væri gaman ef við náum að brúa kynslóðabilið. Ef leikhús er gott þá þykir fólki leikhúsið vera merkilegur staður, og ég held okkur hafi tekist það þarna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.