Erlent

Úkraínubúar flestir andvígir aðskilnaði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Íbúi í Donetsk býr sig undir kosningar á sunnudag.
Íbúi í Donetsk býr sig undir kosningar á sunnudag. Vísir/AP
Íbúar Úkraínu vilja flestir búa áfram í óskiptu landi, þrátt fyrir ákafa baráttu uppreisnarmanna í austurhlutanum. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun frá Pew-rannsóknarmiðstöðinni, sem er bandarísk en gerir viðamiklar og vandaðar kannanir á afstöðu fólks víða um heim.

Uppreisnarmenn í Donetsk-héraði ætla að halda fast við áform sín um að efna til kosningar um það hvort héraðið eigi að lýsa yfir sjálfstæði.

Þetta gera þeir þrátt fyrir að Vladímír Pútín hafi á miðvikudag óvænt skorað á þá að fresta þessum kosningum. Pútín sagði hins vegar að forsetakosningar í Úkraínu síðar í mánuðinum gætu orðið gagnlegar.

Þetta gengur þvert gegn fyrri yfirlýsingum Pútíns, en hann hafði fáum dögum fyrr sagt að ekkert vit væri í að halda forsetakosningar í landinu á meðan allt logar þar í átökum.

Samkvæmt könnuninni eru 77 prósent íbúa landsins andvíg því að það klofni í sundur. Heldur færri íbúar austurhluta landsins eru reyndar þessarar skoðunar, eða 70 prósent á móti 93 prósentum í vesturhlutanum.

Meðal rússneskumælandi íbúa austurhlutans vilja 58 prósent halda Úkraínu áfram óskiptri, sem er ótvíræður meirihluti, en Krímskagi sker sig töluvert úr, því einungis 12 prósent íbúa þar vilja að Úkraína sé óskipt – en í síðasta mánuði var skaginn innlimaður í Rússland.

Meiri ágreiningur var meðal íbúa landsins um það hvort úkraínska eða rússneska ætti að vera opinbert tungumál landsins eða hvort bæði málin ættu að vera jafngild.

Tveir af hverjum þremur íbúum vesturhlutans sögðu að úkraínska ætti að vera ríkismálið, en 73 prósent íbúa austurhlutans vildu að bæði málin væru jafngild. Sárafáir vildu þó að rússneska ætti ein að vera ríkismálið, eða um tvö prósent allra landsmanna.

Ein spurninganna í könnuninni snerist um það hvort Úkraínustjórn ætti að viðurkenna niðurstöðu kosninganna á Krímskaga í síðasta mánuði, sem urðu til þess að Rússland innlimaði Krímskaga.

Hér má hvernig skoðunin var á milli landshluta.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×