Innlent

Freyja Haralds beitt ofbeldi fyrir framan stórmarkað: „Mig langaði að kasta upp“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Í greininni skrifar Freyja um það hvernig fatlaðar konur verða samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum fyrir margfalt meira ofbeldi en ófatlaðar konur.
Í greininni skrifar Freyja um það hvernig fatlaðar konur verða samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum fyrir margfalt meira ofbeldi en ófatlaðar konur. vísir/gva
Freyja Haraldsdóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, lýsir ofbeldi sem hún varð fyrir í vetur í nýjasta tölublaði Akureyrar Vikublaðs. Greinin er liður í átaki þar sem hvatt er til vitundarvakningar vegna ofbeldis gegn konum.

Í greininni segir Freyja frá ferð í verslun í vetur þar sem hún beið fyrir framan bíl á meðan aðstoðarkona hennar gekk frá innkaupapokum. Eldri maður kom að Freyju og snerti hana ítrekað án þess að aðstoðarkonan yrði þess vör.

„Hann byrjaði að strjúka á mér hárið, andlitið, bringuna, vinstra brjóstið, magann og niður lærið á mér,“ skrifar Freyja, sem leit í hina áttina og beið eftir að ofbeldinu lyki. Hún segist ekki hafa komið upp orði.

„Þessar nokkru sekúndur liðu eins og heil eilífð. Næsta sem ég man er að aðstoðarkonan er að aðstoða mig inn í bíl og maðurinn stendur á bakvið okkur og starir á mig þar til búið er að loka bílnum og við keyrum burt. Mig langaði að kasta upp. Öskra. Eitthvað. En ég gat það ekki.“

Í greininni skrifar Freyja um það hvernig fatlaðar konur verða samkvæmt alþjóðlegum rannsóknum fyrir margfalt meira ofbeldi en ófatlaðar konur. Þá segir hún fatlaðar konur ólíklegri til að tilkynna það en aðrar og nefnir fyrir því ýmsar ástæður.

„Á okkur má glápa, líkamar okkar eru oft skilgreindir afbrigðilegir og gallaðir og verða viðföng fagfólks sem vill gera við þá [...] Líkamar okkar eru eign almennings.“

Grein Freyju má lesa í heild sinni í Akureyri Vikublaði sem kemur út á morgun.

Freyja var í viðtali í Íslandi í dag í desember á síðasta ári þar sem hún segir frá annarri reynslusögu sem hún lenti í vetur þegar maður öskraði þegar hann sá hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×